Í liðinni viku var Jón Grétar Broddason, fyrrum nemandi Egilsstaðaskóla, jarðsettur. Í minningu hans komu bekkjarfélagar hans, úr árgangi 1983, með gjöf til nemenda skólans. Í kortinu sem fylgdi gjöfinni var skrifað "Hver minning er dýrmæt perla" sem rammar inn fallega hugsun þessara fyrrum nemenda til fallins félaga.
Við þökkum fyrir þessa góðu gjöf og sendum aðstandendum Jóns Grétar innilegar samúðarkveðjur.
Öll börn á aldrinum 6 - 16 ára eiga að sækja grunnskóla (lög um grunnskóla nr. 91/2008). Það er á ábyrgð foreldra að börnin mæti í skóla og stundi nám sitt (reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskóla nr. 1040/2011). Sveitarfélög og skólar setja viðmið um mætingar og ástundun nemenda sem kveða á um viðbrögð skóla ef mætingum er ábótavant.
Góð mæting og ástundun skiptir máli fyrir velferð og líðan barna. Ef barn er oft fjarverandi frá skóla eða kemur ítrekað of seint getur það haft neikvæð áhrif á líðan barns barns og árangur í námi. Góð skólasókn getur að sama skapi stutt við farsæld barns í námi og starfi síðar á lífsleiðinni og stuðlað að vellíðan barns í skólanum og jákvæðri sjálfsmynd.
Foreldrar og forsjáraðilar þurfa að skrá veikindi og skemmri leyfi barna í Mentor og sækja um lengri leyfi. Ekki er hægt að skrá leyfi fyrir barn með dags fyrirvara í Mentor.
Í verklagsreglum, sem skólinn hefur sett sér, er haft samband heim ef barn mætir ekki að morgni og ekki liggur fyrir skráning í Mentor. Ýmist er hringt eða sendur tölvupóstur. Þar er horft til aldurs barns og þroska og þetta er gert með öryggi barna í huga. Mikilvægt er að foreldrar og forsjáraðilar upplýsi kennara eða stjórnendur um það ef barn er í leyfi marga daga í einu en kennarar gefa ekki út áætlanir til margra vikna í senn og ekki fram tímann fyrir nemendur sem eru að fara í lengra leyfi.
Viðmið um ástundun er að finna undir tenglinum Nemendur og sömuleiðis ábendingar um mikilvægi mætinga.
Múlaþing hefur sett viðmið vegna skólasóknar sem má sjá á heimasíðunni undir tenglinum Gagnlegt efni.
Egilsstaðaskóli hefur sett sér reglur um nemendaheimsóknir í skólann. Börn, sem koma og dvelja tímabundið hjá foreldrum / forsjáraðilum geta sótt um fastar heimsóknir í Egilsstaðaskóla. Sækja þarf um námsdvöl með að minnsta kosti viku fyrirvara. Nemendur sem koma úr öðrum skólum þurfa að hafa með sér námsáætlun og námsgögn frá eigin skóla.
Ekki er hægt að verða við beiðnum um tilfallandi heimsóknir fyrrum nemenda við skólann, ættingja eða vina nemenda. Öllum beiðnum um heimsóknir er vísað til skólastjóra eða aðstoðarskólastjóra.
Reglurnar í heild eru aðgengilegar undir tenglinum Foreldrar.