Fréttir

20.12.2024

Jólaskemmtanir og jólafrí

Nemendur í 1. - 6. bekk mættu á jólaskemmtun í morgun. Í upphafi fluttu 6.bekkingar jólasveinavísur eftir Jóhannes úr Kötlum og sungu eitt hresst jólalag. Allir fóru svo í heimastofur og áttu notalega jólastund. Allir komu svo saman og dönsuðu í kringum jólatréð. Kennaraband Tónlistarskólans á Egilsstöðum sá um undirleik og forsöng. Jólasveinar litu við og dönsuðu nokkra hringi en þar sem mikið annríki er hjá þeim þessa dagana stoppuðu þeir stutt við. Allir nemendur eru nú komnir í kærkomið jólafrí fram til 6. janúar á nýju ári. Skrifstofa skólans er lokuð til 3. janúar en þá hittast kennarar og annað starfsfólk næst. Starfsfólk Egilsstaðaskóla óskar nemendum og fjölskyldum þeirra gleðilegra jóla og þakkar samstarfið á árinu.
19.12.2024

Á ferð með gullkorn

Á hverjum vetri hittast vinabekkir nokkrum sinnum og gera eitthvað notalegt saman. Krakkarnir í 4. og 9. bekk áttu vinastund þar sem þau skrifuðu gullkorn og settu í krukkur. Þau fóru svo með krukkurnar á vinnustaði í bænum þar sem þeim var afar vel tekið. Þetta var ánægjuleg samvera í jólaamstrinu.
17.12.2024

Dagar í desember

Í skólanum eru ýmis verkefni í gangi þrátt fyrir að jólafríið nálgist óðfluga. Sum þeirra eru tengd jólunum en önnur alls ekki. Á meðan krakkarnir í 6. bekk gerðu sér jólaskraut og bökuðu piparkökur sýndu sjöundu-bekkingar verkefni sín í náttúrufræði. Í 4. bekk bjuggu krakkarnir til gluggaskraut og á unglingastigi var samkeppni um fallegustu jólahurðina. Allir unglingarnir fóru saman á skautasvellið og fengu heitt kakó og piparkökur. Í dag komu margir með jólahúfur í skólann og það er hátíðarmatur í hádegismatinn. Jólakötturinn læðist upp um veggi og það eru lesnar jólabækur. Það er semsagt jólalegt yfir öllu eins og vera ber á þessum tíma.