Starfsáætlun nemenda 2024 - 2025

Starfsáætlun nemenda 2024 - 2025

Skóladagar
Skóladagatal fyrir skólaárið 2024 - 2025 er að finna á heimasíðu skólans

Skóladagatalið sýnir þá daga sem nemendur eiga að vera í skólanum, hvaða daga er vikið frá hefðbundnum skóladegi og hvaða daga nemendur eiga frí. Skóladagar eru 180 á níu mánuðum.

  • Bláir dagar á skóladagatalinu eru skertir dagar; þá er skóladagurinn styttri fyrir nemendur en stundaskráin segir til um.
  • Bleikir dagar á skóladagatali eru upprofsdagar; þá er skólastarf óhefðbundið en viðvera nemenda í skóla nokkurn veginn samkvæmt stundatöflu.
  • Grænir dagar eru tvöfaldir dagar, þ.e. eftir hefðbundinn skóladag er árshátíð eða sýning í tengslum við Nýsköpunardaginn.
  • Gulir dagar á skóladagatali eru starfsdagar og ekki skólastarf fyrir nemendur og þá er Frístund lokuð. Frístund er opin á bláum, grænum og bleikum dögum.
  • Ljósbláir dagar eru frídagar og ekki skólastarf eða Frístund.

Vikulegur kennslutími árganga er:

  • 1.-4. bekkur  1200 mín
  • 5.-7. bekkur  1400 mín
  • 8.-10.bekkur 1480 mín

Skólabyrjun – skólalok
Skólasetning í Egilsstaðaskóla er 22.ágúst haustið 2024 og skólaslit vorið 2025 eru föstudaginn 6. júní.

Jólaleyfi
Jólaleyfi er dagana 21. desember til 2. janúar, 3. janúar starfsdagur og 6. janúar fyrsti kennsludagur eftir jólaleyfi.

Páskaleyfi
Páskaleyfi er dagana 12. apríl  til og með 21. apríl 2025; 22. apíl er fyrsti kennsludagur eftir páska. 

Vetrarfrí            
Vetrarleyfi á haustönn er fimmtudag 17. október og föstudaginn 18. október. 

Vetrarleyfi á vorönn er 6. og 7. mars. 

Starfsdagar eru 4. nóvember, 22. nóvember, 3. janúar, 17. febrúar og 30. maí. Þá eru nemendur í fríi.

Samstarfsdagar
Samstarfsdagar verða 5. nóvember og 20. febrúar 2025. 

Þann 5. nóvember eru hefðbundin samstarfsviðtöl. Umsjónarkennarar senda út upplýsingar um samstarfsdaga til foreldra með góðum fyrirvara og foreldrar skrá sig á þann tíma sem þeim hentar í gegnum Mentor. Foreldrar aðstoða jafnframt nemendur við að fylla út sjálfmat á Mentor sem varðar líðan og nám nemandans. Sjálfsmatið liggur til grundvallar í samstarfsviðtalinu, en jafnframt er námsstaða nemanda til umræðu og þá með tilvísun í hæfnikort nemenda á Mentor.

Þann 20. febrúar verða nemendastýrð viðtöl. Umsjónarkennararar boða nemendur og forráðamenn í skólann á ákveðnum tíma. Þar fundar nemandinn með foreldrum/forráðamönnum sínum og fer yfir fyrir fram ákveðna dagskrá sem hann hefur undirbúið undir leiðsögn kennara.

Leiðarljós samstarfsviðtala er að foreldrar og kennari eru teymi sem vinna að velferð barnsins. Áhrif foreldra á nám og líðan barna eru óumdeild og samstarfsviðtöl eiga að tryggja að allir foreldrar eigi hlutdeild í skólagöngu barna sinna. Þau eiga jafnframt að stuðla að því að nemendur læri að taka ábyrgð á eigin námi með því að skipuleggja það í samráði við kennara og foreldra.  Að  jafnaði eru viðtölin um 15-20  mínútna löng.  

Göngudagur
Göngudagur skólans er 3. september.  Á göngudaginn er farið í gönguferðir um hið fagra Fljótsdalshérað. Gönguleiðirnar eru mislangar allt frá 3 km upp í 16 km. Göngudagur skólans er upprofsdagur. 

Gönguleiðir:
1. bekkur                   Sigfúsarlundur
2. bekkur                   Klofasteinn
3. bekkur                   Egilsstaðavík
4. bekkur                   Hrafnafell
5. bekkur                   Rauðshaugur
6. bekkur                   Fardagafoss
7. bekkur                   Valtýshellir
8. bekkur                   Bjargselsbotnar
9. bekkur                   Stapavík
10. bekkur                 Stórurð

BRAS – barnamenningarhátíð á Austurlandi.
BRAS er menningarhátíð þar sem börnum er gefið tækifæri til að skapa og upplifa listir í víðasta samhengi. Hátíðin var haldin í fyrsta skipti í september 2018.

Menningarhátíðin stendur yfir í september og október. Heimasíðan hátíðarinnar er www.bras.is

Vinadagurinn - vinabekkir
Í október eru vinadagar.  Markmiðið með vinadögunum er að styrkja vinatengsl meðal nemenda með samveru vinabekkja. Í Egilsstaðaskóla eru árgangar paraðir saman og helst samstarf þeirra í fimm ár. Eða þar til eldri árgangurinn útskrifast og sá yngri tekur að sér yngsta árgang skólans. Verkefnin, sem vinabekkirnir vinna saman, eru sniðin að aldri þeirra árganga sem hittast.

Péturshlaup
Péturshlaupið er minningarhlaup um Pétur Kjerúlf Þorvarðarson fyrrum nemanda skólans sem lést vorið 2006. Pétur var mikill íþróttamaður og hefur hlaupið verið fastur liður í starfi Egilsstaðaskóla frá því haustið 2006. Nemendur í 5.-10.bekk hlaupa mislanga hringi eftir aldri. Péturshlaupið er haldið í október.

Árshátíðir
Árshátíðir skólans eru haldnar í fernu lagi. Að hausti er árshátíð elsta stigs og í ár verður söngleikurinn "High School Musical" sviðsettur. Allir nemendur á elsta stigi koma á einhvern hátt að uppsetningunni en kennarar á unglingastigi sjá um undirbúning og framkvæmd.
Árshátíð 5. - 7. bekkjar er í febrúar og þá eru sett á svið ýmis þekkt leikrit.
Árshátíðir á yngsta stigi eru tvískiptar; 1. og 2. bekkur sýna saman og 3. og 4. bekkur saman og eru haldnar í mars.
Tónlistarskólinn á Egilsstöðum er samstarfsaðili skólans við árshátíðarvinnu, bæði með tónlistarflutningi og æfingar söngatriða.

Dagsetningar árshátíða eru áætlaðar þessa daga (með fyrirvara um breytingar):

Elsta stig (8.-10. bekkur): 13. nóvember
Miðstig (5.-7. bekkur): 5. febrúar
3. og 4. bekkur: 19. mars
1. og 2. bekkur: 27. mars

Árhátíðardagurinn er tvöfaldur skóladagur fyrir það stig/bekki sem heldur árshátíðina hverju sinni.

Jólastund foreldrafélagsins
Jólastund foreldrafélagsins er á dagskrá um mánaðarmótin nóvember - desember. Hún er fyrri hluta dags um helgi.  Foreldrum og nemendum er boðið að koma í skólann og eiga notalega stund þar sem er hægt er að taka þátt í föndri og matargerð í smáum stíl. Nemendur í 9.bekk sjá um kaffisölu á jólastundinni.

Jólaskemmtun
Jólaskemmtun skólans er fyrir nemendur í 7.-10. bekk að kvöldi  19. desember. Skemmtun er í skóla og jólaball í félagsmiðstöðinni Nýung á eftir. Ekki er kennsla hjá nemendum í 7.-10. bekk föstudaginn 20. desember.

Jólaskemmtanir fyrir nemendur í 1.-6.bekk eru fyrir hádegi föstudaginn   20. desember og er þetta skertur skóladagur. Á jólaskemmtuninni flytur 6. bekkur jólasögu og gengið er í kringum jólatré. 

Upplestrarkeppnin -stóra og litla
Egilsstaðaskóli tekur þátt í Stóru upplestrarkeppninni í 7. bekk og Litlu upplestrarkeppninni í 4. bekk.

Stóra upplestrarkeppnin byggir á tveimur megin hlutum, ræktunarhluta og hátíðarhluta. Í ræktunarhlutanum, sem fer fram í skólanum, er lögð áhersla á að æfa upplestur og framburð. Í lok ræktunarhlutans fer fram skólahátíð í upplestri þar sem allir nemendur lesa. Fulltrúar skólans lesa síðan á Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar. Litla upplestrarkeppnin fer fram inn í skólanum og byggir á sömu hugmyndum og Stóra upplestrarkeppnin. Við lok litlu upplestrarkeppninnar lesa flytja nemendur dagskrá með upplestri fyrir foreldra. 

Öskudagur
Öskudagur er samstarfsverkefni skólans og foreldrafélags skólans. Vinabekkir hittast á öskudag og að lokinni samverustund taka yngstu árgangar skólans þátt í öskudagsskemmtun í íþrótthúsinu. Öskudagur er skertur skóladagur.

Héraðsleikar
Þann 2. maí eru haldnir Héraðsleikar í grunnskólum Í Múlaþingi. Þennan dag hittast nemendur skólanna, skipt eftir stigum, í skólunum og fara í gegnum stöðvar með ýmsum verkefnum. Héraðsmót er upprofsdagur.

Forvarnardagur
Samhliða Héraðsmótinu er haldinn forvarnardagur fyrir elsta stig. Skipulagið er í höndum félagsmiðstöðvarinnar Nýungar og forvarnarfulltrúa sveitarfélagsins. Skipulagið er ekki alltaf eins en oftast eru fyrirlestrar, skapandi vinna og stöðvar. Forvarnardagurinn er upprofsdagur. 

Vordagur
Síðastu tveir kennsludagur skólaársins eru kallaðir vordagar. Dagarnir eru skertir skóladagar. Skipulag vordags er mismunandi ár frá ári og er skipulag í höndum umsjónarkennara hvers árgangs.

Vettvangsferðir
Vettvangsferðir eru fastir liðir í starfsemi skólans. Farið er í ýmsar styttri ferðir í nágrenni skólans og umhverfið nýtt til náms og kennslu. Ekki er um fastar dagsetningar að ræða í öllum tilfellum, en reynt að skipuleggja ferðirnar eftir veðri og aðstæðum hverju sinni. Nemendur og foreldrar/forráðamenn fá upplýsingar um fyrirhuguð ferðalög/vettvangsferðir tímanlega.

Helstu vettvangsferðir nemenda eru:
3. bekkur: Ferð að sjávarsíðunni í maí.
5. bekkur: Ferð í Fljótsdal – Skriðuklaustur og Snæfellsstofu í maí
7. bekkur: Ferð í Skaftfell Seyðisfirði og þátttaka í fræðsluverkefni á vegum Skaftfells, miðstöðvar um sjónlistir á Austurlandi. Í sumum tilfellum koma starfsmenn Skaftfells í Egilsstaðaskóla.

7. bekkur: Náttúruskoðunarferð.  Farið er á Borgarfjörð eystri og þar skoðuð ýmis undur náttúrunnar.  Áætluð ferð er í maí.

9. bekkur: Ferð á Stríðsminjasafnið á Reyðarfirði og í Fjarðabyggð. Ferðin er í tenglum við námsefni 9.bekkjar um stríðsárin. Ferðin er farin í maí. 

10.bekkur fer í skólaferðalag að vori. Undanfarin ár hefur hópurinn farið útfyrir Austurland, gist í tvær nætur ásamt umsjónarkennurum og gert ýmislegt saman. Markmiðið með ferðinni er að nemendur eigi góðar stundir saman og með umsjónarkennurum við lok grunnskólans.

Ef ferðalag á vegum skólans stendur yfir nótt þarf skriflegt leyfi foreldra/forráðamanna. Um reglur í ferðum á vegum skólans gilda skólareglur og aðrar reglur sem kynntar eru nemendum og foreldrum sérstaklega.

Próf
Í Egilsstaðaskóla eru ekki formlegir prófadagar, enda námsmat hluti af daglegu starfi.