Þroskaþjálfar

Í Egilsstaðaskóla er mikið lagt upp úr því að öllum geti liðið vel í leik og starfi.  Þroskaþjálfi/iðjuþjálfi vinnur með nemendum sem þurfa sérstakan stuðning, s.s. með félagsfærniþjálfun. Félagsfærni er kennd einstaklingslega, í litlum hópum og einnig á bekkjarvís eins og gert er með ART í 2.bekk.  

Í þessari kennslu er lögð áhersla á félagsfærni, tilfinningastjórnun og siðferði. Undirstaðan er sú að öll höfum við hugsanir og tilfinningar sem við lærum smám saman að þekkja og stjórna. Kennt er hvað það þýðir að vera hluti af hópi, hvernig við getum lesið í umhverfið og dregið ályktanir um hvaða hegðun er viðeigandi og/eða óviðeigandi  hverju sinni.  

Kennslan er fjölbreitt, síbreytileg og lausnamiðuð. Í grunninn er áhersla lögð á spjall, hlutverkaleiki og spil en barnabækur, myndbrot, sjónvarpsefni og hinar ýmsu heimasíður spila líka mikilvægt hlutverk í kennslunni. Á meðan barnabækur og bútar úr teiknimyndum eru kjörin til kennslunnar á yngsta stigi þá henta myndbrot, auglýsingar og fyrirmyndir úr sjónvarpsþáttum/kvikmyndum ef til vill betur fyrir nemendur á eldri stigum. 

Allt nám í félagsfærni er einstaklingsmiðað. Það er því mikilvægt að samvinna við foreldra og heimilin sé góð.

Hvað hugmyndafræði varðar má nefna ART-þjálfun, Félagslega hugsun (Social Thinking) og CAT-kassann. Allt þetta, ásamt fleiru, er tvinnað við það sem verið er að fást við hverju sinni.

Að lokum er hér meðfylgjandi ein af þeim heimasíðum sem sem gæti nýst foreldrum vel: https://sterkariutilifid.is/