Gildi skólans

Ég gleðst yfir góðum degi geng og virðingu sýni menntun hér vil ég mikla metnaður af mér skíni.      

Höfundur: Sigþrúður Sigurðardóttir

Gildi Egilsstaðaskóla eru gleði, virðing og metnaður. Gildin eru rituð á vegg í forstofu skólans og eru sýnileg öllum sem þar koma inn. Gildin eru höfð að leiðarljósi í starfi skólans og markmiðið er að nemendur og starfsmenn tileinki sér þau í leik og starfi.

Gleði

Gleðin leynist í mörgu, listin er að njóta hennar. Glaðlyndi eykur tilhneigingu fólks til að líta lífið og tilveruna jákvæðum augum. Viðhorf til sjálfs sín, annarra og umhverfisins vegur þyngst á vogarskálum gleðinnar. Gleði hefur góð áhrif á líkama og sál. Það besta við gleðina er löngunin til að deila henni með öðrum. Með gleði að leiðarljósi verður nám léttara og samvera betri.

Virðing

Virðing er einn mikilvægasti þáttur mannlegra samskipta. Hún er ekki meðfædd heldur lærð eins og aðrar dyggðir. Mikilvægt er að bera virðingu fyrir sjálfum sér, öðrum og umhverfinu. Skipta má virðingu í innri og ytri virðingu. Innri virðing er þegar einstaklingurinn hefur lært að virða sjálfan sig. Ytri virðing er að bera virðingu fyrir öðrum, setja sig í spor annarra og finna til samkenndar. Með virðingu að leiðarljósi verða samskipti jákvæðari og umburðarlyndi í hávegum haft.

Metnaður

Metnaður er að gera ávallt sitt besta og vera stoltur af verkum sínum. Hver einstaklingur býr yfir auði í formi sköpunarkrafts, getu og reynslu. Metnaður felst í því að virkja þennan auð til góðra verka. Með metnað í farteskinu gerir hver einstaklingur eins vel og hann getur. Starfshættir skólans stuðla að því að nemendur temji sér metnað.

Gildin eru fléttuð inn í skólastarfið með ýmsum hætti. Haldnir eru bekkjarfundir vikulega í öllum árgöngum til að ræða og kryfja mál til mergjar og auka gleði, virðingu og metnað. Í sama tilgangi eru nemendaviðtöl sem umsjónarkennarar taka við hvern og einn nemanda tvisvar á skólaárinu. Samstarf vinabekkja og vinadagurinn er órjúfanlegur hluti af skólastarfinu sem og árshátíðir allra skólastiga. Skólinn leggur rækt við félagsfærniþjálfun með námskeiðum sem allir nemendur taka þátt í á yngri stigum og öðrum gefst kostur á að sækja síðar á skólagöngunni. Í frímínútum á miðstigi er vinaliðaverkefni sem byggir á því að virkja nemendur í leiki.