Fréttir

10.05.2024

Héraðsleikar og Forvarnadagur 2024

Í dag komu saman nemendur úr öllum skólum Múlaþings á Héraðsleika fyrir 1. - 7. bekk og Forvarnadag fyrir 8. - 10. bekk. Héraðsleikarnir fóru fram í Brúarási, Fellaskóla og í Egilsstaðaskóla þar sem voru smiðjur með ýmsum verkefnum. Forvarnadagurinn var skipulagður af starfsfólki sveitarfélagsins sem starfar í frístunda- og forvarnamálum. Krakkarnir í 8. - 10. bekk hlýddu á fyrirlestur hjá Pálmari Ragnarssyni en hann hefur haldið fjölda fyrirlestra um jákvæð samskipti og góða félaga. Krakkarnir tóku þátt í smiðjum og fóru á hraðstefnumót við jafnaldra. Lögreglan kom á staðinn og ræddi við krakkana um sakhæfi, stafrænt ofbeldi og hatursorðræðu. Starfsmenn félagsmiðstöðvanna voru með fræðslu um hvað forvarnir snúast og svo var farið í skemmtilega leiki. Í hádeginu fengu allir grillaðar pylsur og sem betur fer hélst þurrt.
03.05.2024

Útivistardagur í 1. - 4. bekk

Krakkarnir í 1. - 4. bekk unnu ýmis verkefni og þrautir í dag á útivistardeginum sínum. Fjölbreyttar stöðvar voru settar upp í samvinnu við Náttúruskólann í næsta umhverfi skólans. Á stöðvunum var t.d. tálgað og svo skreyttir töfrasprotar, vatnslitað, farið í kubb og æfðir hnútar. Uppi í skólarjóðrinu voru steiktar lummur og poppað yfir eldi. Í Tjarnargarðinum æfðu krakkarnir frisbee-golf og tóku einnig þátt í víkingaleikjum sem var unnið í samstarfi við Minjasafn Austurlands. Á einni stöð var farið á hestbak og á annarri stöð var Hildur Bergsdóttir mætt með býflugurnar sínar, sem voru enn í vetrardvala. Auk þess skoðuðu krakkarnir ýmis undur náttúrunnar í víðsjám og með stækkunargler. Það voru glaðir krakkar sem komu inn í hádegismat að dagskránni lokinni.
29.04.2024

Fræðsluferð til Skotlands

Í liðinni viku fóru um 50 starfsmenn Egilsstaðaskóla til Skotlands í fræðsluferð. Markmið ferðarinnar var að kynnast áherslum í skoskum grunnskólum og heyra af verkefnum sem verið er að vinna að. Starfsfólk Seyðisfjarðarskóla var einnig með í ferðinni. Á sumardaginn fyrsta sat starfsfólkið fyrirlestra frá nokkrum aðilum. M.a. var kynnt stefna sem skosk menntayfirvöld hafa innleitt og kallast GIRFEC (Getting it right for every child). Stefnan gengur út á að styðja við börnin á fjölþættan hátt með áherslu á velferð þeirra. Af sama meiði er verkefnið Nurture sem íslensk menntayfirvöld hafa verið að kynna fyrir skólafólki á Íslandi. Eftir hádegi var fyrirlestur um hvernig nýta má LEGO í kennslu og þátttakendur unnu nokkur skemmtileg verkefni i tengslum við það. Íþróttakennarar sóttu sérstakt námskeið í íþrótt sem kallast padlet auk annarrar fræðslu. Á föstudeginum var farið í skólaheimsókn í grunnskólann í Alloa í Clackmannanshire. Þar var kynning á verkefnum sem skólinn vinnur með og nemendur kynntu verkefni sem þau eru að vinna í ritun. Það er áhugavert að sjá skólastarf í öðrum löndum; margt er svipað og hjá okkur og áherslan á að styðja við börnin til að þau geti nýtt styrkleika og hæfileika sem best. Við fengum margar hugmyndir og sáum spennandi hluti sem við gætum nýtt okkur í starfinu. Starfsmannahópurinn naut þess að vera saman og við komum heim reynslunni ríkari.
19.04.2024

Stríðsárin