Skólasöngur

Skólasöngur Egilsstaðaskóla er Skólagönguferðalag, lag Charles Ross og texti eftir Sigþrúði Sigurðardóttur, sem bæði hafa starfað eða eru starfandi við skólann. Söngurinn var samin árið 2007 á 60 ára afmæli skólans. Hann er sunginn við skólasetningu og skólaslit og önnur tækifæri þar sem nemendur skólans koma saman. Textinn vísar m.a. til gilda skólans.

Skólagönguferðalag

Skólasöngur Egilsstaðaskóla
Lag: Charles Ross texti: Sigþrúður Sigurðardóttir
 
Kæri vinur, heyrirðu ekki að haustið er að kalla
Það heilsar öllum glaðlega að gömlum sveitasið.
Kallar okkur verka til uns vetri fer að halla
en vorið sendir allan hópinn út í sumarið.
Sumarið – eigum við
sæl við róum þá á önnur mið.
 
Ferðina við hefjum brátt og herðum okkar göngu
hjalla marga klífum upp og tindinn stefnum á
í bakpokanum flytjum við á ferðalagi ströngu
fyrirheit um jákvæðni og gleði, von og þrá.
Von og þrá – vekja má
virðingu og hlýju sýnum þá.
 
Viðlag
Saman leiðumst hönd í hönd
ávallt göngum frjáls í fasi
og fögnum því að hittast enn á ný.
Litrík vefjum vinabönd
lendum ekki í þrefi og þrasi
en þreytum okkar göngu skólann í.
 
Kannski sýnist einhverjum að erfið reynist förin
ekki skulum hika við en feta nýja slóð.
Á þeirri leið við finnum margt sem færir okkur svörin,
fyllir okkur eldmóði og kveikir nýja glóð.
Kveikjum glóð - kát og rjóð
hvetjum áfram bæði pilt og fljóð
 
Þegar hæsta tindi er náð þá horfum við til baka
hissa á því hve rösklega við gengum þessi spor
því af góðu minningunum mörgu, er að taka
mikilsvert er þó að allir efldu kjark og þor.
Með kjark og þor – kemur vor
kankvís tökum næsta gæfuspor.
 
Viðlag
Saman leiðumst hönd í hönd
ávallt göngum frjáls í fasi
og fögnum því að hittast enn á ný.
Litrík vefjum vinabönd
lendum ekki í þrefi og þrasi
en þreytum okkar göngu skólann í.