Skólaheilsugæsla

Skólahjúkrunarfræðingar Egilsstaðaskóla eru Björg Eyþórsdóttir (bjorg.eythorsdottir@hsa.is) og Hanna Guðrún Brynjarsdóttir (hanna.brynjarsdottir@hsa.is) .

Viðvera skólahjúkrunarfræðinga er mánudaga, þriðjudaga og fimmtudaga frá 9:00 – 14:00.  Utan viðverutíma er hægt að senda tölvupóst eða hringja í 470-0605 / 470-3000 og skilja eftir skilaboð.

Meginmarkmið skólaheilsugæslu er að stuðla að velferð og vellíðan nemenda, að þeir hafi tækifæri til að vaxa og þroskast og stunda nám sitt við bestu andlegu, líkamlegu og félagslegu aðstæður sem kostur er á.

Heilsuvernd skólabarna er framhald af ungbarnavernd og er unnið þétt með forráðamönnum, kennurum, skólastjórnendum og öðrum sem koma að málefnum nemenda. Farið er með allar upplýsingar sem trúnaðarmál.

Heilsufarsskoðanir & bólusetningar:

1.bekkur: hæð, þyngd og sjónpróf & viðtal um lífstíl og líðan

4.bekkur: hæð, þyngd og sjónpróf & viðtal um lífstíl og líðan

7.bekkur: hæð, þyngd og sjónpróf & viðtal um lífstíl og líðan

  • Bólusetning gegn mislingum, hettusótt og rauðum hundum (MMR)
  • Bólusetning gegn HPV veirum (Gardasil 9)

9.bekkur: hæð, þyngd og sjónpróf & vuðtal um lífstíl og líðan

  • Bólusetning gegn kíghósta, barnaveiki, stífkrampa og mænusótt (Boostrix polio)

 

Skólahjúkrunarfræðingar hafa samband fyrir bólusetningar og einnig ef vantar upp á fyrri bólusetningar nemenda. Bólusetningar barna eru alltaf á ábyrgð foreldra.

Skólhjúkrunarfræðingar sinna einnig skipulagðri heilbrigðisfræðslu í öllum árgöngum auk tilfallandi fræðslu sem óskað er eftir hverju sinni. Fræðslan byggir á 6H heilsunnar; hamingja, hollusta, hreinlæti, hreyfing, hugrekki og hvíld. Auk þess er lögð áhersla á kynheilbrigði og endurlífgunarkennslu. Sjá má skipulag heilbrigðisfræðslu eftir árgöngum hér: Fræðsla (throunarmidstod.is)

Slys & veikindi:

Veitt er fyrsta hjálp í skólanum og minniháttar slysum sinnt. Ef þörf þykir á frekari þjónustu heilsugæslunnar hefur skólahjúkrunarfræðingur samband við forráðamenn sem fylgja barninu þangað. Ekki er ætlast til að óhöppum sem gerast utan skólatíma sé sinnt í skólanum.

Mikilvægt er að skólahjúkrunarfræðingar hafi upplýsingar um þau börn sem kljást við langvinn veikindi eins og flogaveiki, sykursýki, alvarlega sjúkdóma og ofnæmi.

Lyfjagjafir:

Samkvæmt fyrirmælum Landlæknisembættisins eru sérstakar vinnureglur varðandi lyfjagjafir til nemenda á skólatíma. Þar kemur meðal annars fram að skólabörn skulu ekki fá önnur lyf í skólanum en þau sem hafa verið ávísuð af lækni. Í engum tilvikum getur barn borið ábyrgð á lyfjatökunni. Ábyrgðin er foreldranna. Börn skulu ekki hafa nein lyf undir höndum nema í algjörum undantekningartilvikum. Slíkar lyfjagjafir geta t.d. verið insúlíngjafir sem barnið sér sjálft alfarið um. Foreldrar(forráðamenn þeirra barna sem þurfa að taka lyf á skólatíma skulu hafa samband við skólahjúkrunarfræðinga eða skólastjórnendur og skipuleggja lyfjagjafir á skólatíma. Hér eru nánari upplýsingar um lyfjagjafir í skólanum:

Tilmæli landlæknis um lyfjagjafir í skóla_uppfært23.pdf (throunarmidstod.is)

Ósk foreldra um lyfjagjöf á skólatíma

Skólahjúkrunarfræðingar bjóða uppá ráðgjöf og stuðning við foreldra/forráðamenn og eru hvött til að hafa samband ef eitthvað er.
Á síðu þróunarmiðstöðvar heilsugæslunnar eru síðan ítarlegar upplýsingar um starfsemi skólaheilsugæslunnar: Heilsuvernd skólabarna (throunarmidstod.is)