Nemendur í 1. og 2. bekk héldu fjórðu og síðustu árshátíð skólaársins. Rúmlega 80 börn brugðu sér í gervi persónanna sem við þekkjum úr sögunum um Línu Langsokk. Þarna stigu á svið Tommi og Anna, Langsokkur kapteinn og skipsfélagar hans, þjófar og lögreglumenn og nemendur í skólanum, að ógleymdri frú Prússulín og vinkonum hennar. Lína sjálf lék við hvern sinn fingur, dansaði og söng.
Þessir yngstu nemendur skólans sýndu mikinn dugnað og þor með því að koma fram fyrir fullan sal af aðstandendum og margir voru greinilega fegnir að geta hlaupið í fangið á sínu fólki að sýningunni lokinni.
Að venju aðstoðu tónlistarkennarar úr Tónlistarskólanum á Egilsstöðum við uppsetninguna auk þess sem nemendur úr 4. og 7. bekk stjórnuðu hljóði og ljósum.
Árshátíðarvertíðinni er lokið í bili en hefst svo aftur í haust með árshátíð elstu nemenda.
Það eru fjölbreytt viðfangsefni í skólanum að venju. Í dag hófst fyrirlögn á Matsferli en Egilsstaðaskóli er einn 26 skóla sem taka þátt í þróun á stafrænum stöðu- og framvinduprófum í lesskilningi og stærðfræði. Matsferill verður svo tilbúinn á næsta ári og þá lagður fyrir nemendur í 4. - 10. bekk í öllum skólum.
Krakkarnir í 9. bekk nýttu sér gangana til að ræða um stærðfræði og reikna saman. Með þessu móti er stærðfræðin sýnileg í skólaumhverfinu og verður þannig til þess að krakkarnir ræða um hana sín á milli.
Á hverju skólaári tekur 7. bekkur þátt í verkefni sem gengur undir nafninu Stóra upplestrarkeppnin. Verkefnið nær allt aftur til 1996 þegar þróunarverkefni um upplestur og framsögn hófst í Hafnarfirði. Þó í heiti verkefnisins sé orðið keppni þá er alls ekki um eiginlega keppni að ræða heldur þróunarverkefni sem snýst um að æfa nemendur í upplestri og auka áhuga á íslensku.
Stóra upplestrarkeppnin fer fram í þremur hlutum. Í upphafi æfa allir nemendur í 7.bekk sig í upplestri og framsögn og á bekkjarhátíð eru valdir 15 lesarar sem fara áfram í næsta hluta. Á skólahátíð eru fengnir utanaðkomandi dómarar til að velja 5 nemendur sem eru fulltrúar skólans á Héraðshátíð.
Héraðshátíðin fór fram í Egilsstaðakirkju 25. mars sl. Fulltrúar Egilsstaðaskóla stóðu sig framúrskarandi: Bjarni Jóhann Björgvinsson var valinn besti lesarinn og Styrmir Vigfús Guðmundsson varð í þriðja sæti.
Það er alltaf ánægjulegt að fylgjast með hvað krakkarnir eflast og styrkjast í æfingaferlinu og þetta er þjálfun og reynsla sem nýtist þeim síðar í lífinu við margvíslegar aðstæður.