Fréttir

07.04.2025

Hvernig bætum við umhverfið okkar?

Nemendur í 4. bekk hafa undanfarið fjallað um lýðræðislegar kosningar og hvernig hægt er að hafa áhrif á umhverfi sitt. Í kjölfar þess kusu krakkarnir um hugmyndir sem þau höfðu sett fram og skrifuðu svo bréf til sveitarstjóra þar sem hugmyndunum var komið á framfæri. Til að fylgja erindinu eftir fór hópurinn upp á bæjarskrifstofur og heimsótti Dagmar Ýr sveitarstjóra. Meðfylgjandi er bréfið sem þau skrifuðu og myndir af krökkunum. Kæra Dagmar, sveitarstjóri Múlaþings Við í 4. bekk í Egilsstaðaskóla höfum nýlega rætt um lýðræðislegar kosningar og hvernig við getum haft áhrif á nærumhverfi okkar. Í lífsleiknitíma í skólanum kusum við átta hugmyndir sem við teljum að myndu bæta umhverfið okkar mikið. Við viljum því koma þessum hugmyndum á framfæri við ykkur og vonum að þær fái athygli. Hér eru hugmyndirnar sem við völdum: 1. Moka gangstéttir betur og oftar. Það er ekki gott að þurfa að labba á götunni þegar það er mikill snjór eða ruðningar. Svo eru sumir sem hjóla, eru með barnavagn eða í hjólastól sem komast ekki leiðar sinnar þegar það er mokað illa. 2. Fleiri vatnskranar við íþrótta- eða leikvelli. 3. Hreinsa tjörnina í Tjarnargarðinum. 4. Betri körfuboltavöll í Fellabæ. 5. Fleiri leikvelli og leiktæki fyrir okkar aldurshóp. 6. Vísindi sem námsgrein í Egilsstaðaskóla. 7. Stærra skautasvell og fleiri hjálpargrindur við skautasvellið. 8. Afmarkaður staður á Egilsstöðum þar sem ríkir friður, ró og hæglæti. Það væri hægt að setja upp skilti og hvetja fólk til hæglætis og rólegheita, að það væri bannað að vera með læti á þessu svæði. Við teljum að þessar breytingar myndu hafa jákvæð áhrif á samfélagið okkar og bæta lífsgæði bæði barna og fullorðinna. Við vonum að sveitarfélagið geti skoðað þessar hugmyndir og kannski tekið fyrstu skrefin í að framkvæma þær. Við erum spennt fyrir því að sjá hvernig bæjarfélagið okkar getur orðið enn betra fyrir alla, og við erum tilbúin að styðja við verkefni sem tengjast þessum hugmyndum ef það þarf. Við þökkum ykkur fyrir að taka okkur alvarlega og hlökkum til að heyra frá ykkur. Með kærri kveðju, Nemendur í 4. bekk, Egilsstaðaskóla
04.04.2025

Útivistardagur í blíðviðri

Veðrið lék við nemendur og starfsfólk í 5. - 10. bekk á útivistardegi í dag. Val var á milli þess að ganga yfir í Vök og baða sig þar í laugunum eða fara á skíði í Stafdal. Stór hópur nemenda eða um 120 völdu að fara í Vök og um 70 fóru á skíði í Stafdal. Dagurinn gekk vel og börn og fullorðnir nutu útiverunnar til hins ítrasta. Meðfylgjandi eru myndir sem starfsfólk skólans tók í Vök og í Stafdal en þær sýna vel stemninguna sem ríkti.
01.04.2025

Lína langsokkur kveður í bili

Nemendur í 1. og 2. bekk héldu fjórðu og síðustu árshátíð skólaársins. Rúmlega 80 börn brugðu sér í gervi persónanna sem við þekkjum úr sögunum um Línu Langsokk. Þarna stigu á svið Tommi og Anna, Langsokkur kapteinn og skipsfélagar hans, þjófar og lögreglumenn og nemendur í skólanum, að ógleymdri frú Prússulín og vinkonum hennar. Lína sjálf lék við hvern sinn fingur, dansaði og söng. Þessir yngstu nemendur skólans sýndu mikinn dugnað og þor með því að koma fram fyrir fullan sal af aðstandendum og margir voru greinilega fegnir að geta hlaupið í fangið á sínu fólki að sýningunni lokinni. Að venju aðstoðu tónlistarkennarar úr Tónlistarskólanum á Egilsstöðum við uppsetninguna auk þess sem nemendur úr 4. og 7. bekk stjórnuðu hljóði og ljósum. Árshátíðarvertíðinni er lokið í bili en hefst svo aftur í haust með árshátíð elstu nemenda.