Þar sem fjöldi unglinga kemur saman þar er fjör! Í Egilsstaðaskóla hafa unglingarnir fengist við fjölbreytt verkefni síðustu daga. Legoliðið hefur æft sig af kappi fyrir First Lego League keppnina sem verður í Háskólabíói á laugardaginn. Hægt verður að fylgjast með liðinu á netinu en keppnin hefst kl. 9.30. Slóðin er:
https://firstlego.is/
Hópur krakka valdi sér viðfangsefni sem þau unnu að og meðal afurðanna úr þeirri vinnu eru spil sem þau hönnuðu frá grunni. Og spennan fyrir árshátíðinni hefur stigmagnast. Fyrri sýningin á High School Musical verður í kvöld, miðvikudag og sú seinni annað kvöld. Báðar sýningar hefjast kl. 19.30. Það eru glaðir en spenntir nemendur sem bíða eftir að stíga á svið og sömuleiðis þeir sem stjórna ljósum, hljóði og stýra innkomum á sviðið. Við munum birta myndir frá sýningunni á næstunni.
Stór hluti nemenda á elsta stigi hefur undanfarnar vikur undirbúið árshátíð sína, sem að þessu sinni er uppsetning á söngleiknum High School Musical. Það er að ýmsu að huga við uppsetningu sem þessa; gerð leikmyndar, samsetningu gerva, æfingar á söng og dönsum auk æfinga á leikritinu sjálfu. Nemendur sjá um að stýra ljósi og hljóði á sýningunum, með aðstoð kennara.
Að ósk krakkanna sjálfra verða tvær sýningar og þær eru miðvikudaginn 13. nóvember og fimmtudaginn 14. nóvember, báðar klukkan 19.30. Það er enginn aðgangseyrir að árshátíðum Egilsstaðaskóla en tekið við frjálsum framlögum sem fara í leiklistarsjóð skólans til kaupa á búnaði.
Um miðjan nóvember hefst nýtt valtímabil á elsta stigi. Samkvæmt aðalnámskrá á val í 8. - 10. bekk að vera fimmtungur af námi nemendanna. Skólaárinu er skipt upp í fjögur valtímabil en valið er kennt á þriðjudögum og fimmtudögum, frá kl. 13.50 - 15.10.
Upplýsingar um þau námskeið sem eru í boði er að finna í valbæklingi sem er aðgengilegur á heimasíðu skólans, undir tenglinum Nám og kennsla - Val í 8. - 10.bekk. Heimilt er að meta frístundastarf, s.s. íþróttaiðkun og sjálfboðaliðastarf sem utanskólaval. Sömuleiðis er hægt að fá tónlistarnám metið sem utanskólaval. Þeir sem taka hluta vals utanskóla þurfa að fá staðfestingu foreldra / forsjáraðila með undirskrift á valblaðið.
Með breytingum á Aðalnámskrá grunnskóla fyrr á árinu varð breyting varðandi það hvað má meta sem utanskólaval. Áður var heimilt að meta launaða vinnu sem utanskólaval en það hefur verið afnumið.
Meiri upplýsingar um val er að finna í Aðalnámskrá grunnskóla, á vefsvæðinu www.adalnamskra.is