Fréttir

06.03.2025

Opinn fundur í skólaráði Egilsstaðaskóla

Miðvikudaginn 12. mars nk. verður haldinn fundur í skólaráði sem er opinn öllum, foreldrum og forsjáraðilum, starfsfólki skólans, nemendum og öðrum sem eru áhugasamir um starfsemi skólans. Samkvæmt reglugerð nr. 1157/2008 um skólaráð við grunnskóla skal halda einn líkan fund á ári fyrir aðila skólasamfélagsins. Þar séu málefni skólans til umræðu. Dagskrá fundarins er sem hér segir: Drög að skóladagatali næsta skólaárs Heillaspor; Dagbjört Kristinsdóttir aðstoðarskólastjóri kynnir verkefnið sem er í innleiðingu Öryggismál Önnur mál Fundur verður haldinn í kennslustofu 10. bekkjar sem er nr. 20 og er á annarri hæð kennsluhúsnæðisins, gengið inn um miðstigs/elsta stigs gang, og hefst kl. 17.00.
05.03.2025

Öskudagurinn runninn upp

Margir telja öskudaginn besta dag ársins, bæði börn og fullorðnir og það sýndi sig vel í morgun þegar skólastarfið hófst. Flestir koma í einhvers konar búningum og sumir hafa lagt mikinn metnað í gervin sín. Það er alltaf gaman að ganga um skólann og sjá hvað börn og fullorðnir njóta dagsins en á dagskránni er samvera vinabekkja, samvera árganga og stiga og samkoma í íþróttahúsinu fyrir nemendur í 1. - 5. bekk sem er skipulögð af Foreldrafélagi Egilsstaðaskóla. Skóladegi lýkur um hádegi og þá hefst vetrarfrí sem er eflaust kærkomið fyrir nemendur og starfsfólk.
04.03.2025

Landnám Íslands

Krakkarnir í 4. bekk hafa verið að læra um landnámið á Íslandi undanfarnar vikur. Hvert og eitt valdi sér landnámsmann og öfluðu upplýsinga um hann. Þau gerðu kort af Íslandi og gerðu knörr fyrir hvern landnámsmann sem þau staðsettu á þeim stöðum þar sem þeir námu land. Bekkurinn fékk Baldur Pálsson í heimsókn en hann er Austurlandsgoði og sagði krökkunum frá landnáminu og heiðnum sið. Þau voru mjög spennt að fá goða í heimsókn og eitt barnanna spurði kennarann hvar hann hefði fundið landnámsmann. Í lokin kynntu krakkarnir landnámsmennina sína hvert fyrir öðru.