Fréttir

Jólaskemmtanir og jólafrí

Nemendur í 1. - 6. bekk mættu á jólaskemmtun í morgun. Í upphafi fluttu 6.bekkingar jólasveinavísur eftir Jóhannes úr Kötlum og sungu eitt hresst jólalag. Allir fóru svo í heimastofur og áttu notalega jólastund. Allir komu svo saman og dönsuðu í kringum jólatréð. Kennaraband Tónlistarskólans á Egilsstöðum sá um undirleik og forsöng. Jólasveinar litu við og dönsuðu nokkra hringi en þar sem mikið annríki er hjá þeim þessa dagana stoppuðu þeir stutt við. Allir nemendur eru nú komnir í kærkomið jólafrí fram til 6. janúar á nýju ári. Skrifstofa skólans er lokuð til 3. janúar en þá hittast kennarar og annað starfsfólk næst. Starfsfólk Egilsstaðaskóla óskar nemendum og fjölskyldum þeirra gleðilegra jóla og þakkar samstarfið á árinu.
Lesa meira

Á ferð með gullkorn

Á hverjum vetri hittast vinabekkir nokkrum sinnum og gera eitthvað notalegt saman. Krakkarnir í 4. og 9. bekk áttu vinastund þar sem þau skrifuðu gullkorn og settu í krukkur. Þau fóru svo með krukkurnar á vinnustaði í bænum þar sem þeim var afar vel tekið. Þetta var ánægjuleg samvera í jólaamstrinu.
Lesa meira

Dagar í desember

Í skólanum eru ýmis verkefni í gangi þrátt fyrir að jólafríið nálgist óðfluga. Sum þeirra eru tengd jólunum en önnur alls ekki. Á meðan krakkarnir í 6. bekk gerðu sér jólaskraut og bökuðu piparkökur sýndu sjöundu-bekkingar verkefni sín í náttúrufræði. Í 4. bekk bjuggu krakkarnir til gluggaskraut og á unglingastigi var samkeppni um fallegustu jólahurðina. Allir unglingarnir fóru saman á skautasvellið og fengu heitt kakó og piparkökur. Í dag komu margir með jólahúfur í skólann og það er hátíðarmatur í hádegismatinn. Jólakötturinn læðist upp um veggi og það eru lesnar jólabækur. Það er semsagt jólalegt yfir öllu eins og vera ber á þessum tíma.
Lesa meira

Tunga, hjörtu, lungu og fleiri innyfli

Í 9. bekk læra nemendur um mannslíkamann í náttúrufræði. Hluti af náminu er verklegt þegar krakkarnir kryfja innyfli. Í ár fengu þau að spreyta sig á hreindýratungu og hjörtum, nýrum, typpum, eistum og pungum úr sauðfé. Flestir hafa mjög gaman af þessu þó að stöku nemandi skipti aðeins litum. Eitt af því sem þykir allra mest spennandi er að fá að blása í lungu og margir prófuðu það.
Lesa meira

Hnoðri úr norðri

Við fengum heimsókn af sviðslistahópnum Hnoðra í norðri í síðustu viku. Hópurinn flutti jólasöngleik, sem kallast Ævintýri á aðventu, fyrir nemendur í 1. - 4. bekk. Í verkinu koma fyrir nokkrar jólalegar persónur, sem eru reynda misgeðfelldar. Meðal þeirra eru Grýla, Jólakötturinn og systurnar Solla (á bláum kjól) og Gunna (á nýju skónum). Hnoðri í norðri er skipaður þremur tónlistarmönnum; Jónu, Jóni Þorsteini og Erlu Dóru en sú síðastnefnda var nemandi í Egilsstaðaskóla á árum áður. Krakkarnir höfðu gaman af sýningunni og tóku vel undir sönginn þegar þess var óskað.
Lesa meira

Fullveldishátíðin í Egilsstaðaskóla

Fyrir helgina komu nemendur og starfsfólk Egilsstaðaskóla saman og fögnuðu fullveldi landsins. Nýkjörinn formaður Nemendaráðs Egilsstaðaskóla, Agla Eik Frostadóttir, flutti ávarp og Anna Björk Guðjónsdóttir kennari ávarpaði samkomuna. Nemendur í Tónlistarskólanum á Egilsstöðum fluttu tónlistaratriði og í lokin sungur allir saman þrjú lög í tilefni af Degi íslenskrar tónlistar. Aðventan er nú gengin í garð og mun Nemendaráð skólans skipuleggja viðburði í desember sem verða auglýstir í árgöngum á viðburðadagatali á heimasíðunni.
Lesa meira

Jólastund Foreldrafélags Egilsstaðaskóla

Foreldrafélag skólans býður börnum, foreldrum og forsjáraðilum til samverustundar í skólanum í dag, fimmtudaginn 28. nóvember, milli klukkan 17.00 og 19.00. Boðið verður upp á mismundandi föndursmiðjur þar sem fjölskyldur geta átt notalega stund í aðdraganda aðventunnar. Smiðjurnar verða í stofum 6. og 7. bekkjar og í heimilisfræðistofu. Nemendur í Tónlistarskólanum á Egilsstöðum verða með tónlistarflutning og nemendur í 9. bekk verða með kaffisölu í matsal. Bjóðum ykkur öll velkomin!
Lesa meira

High School Musical - Árshátíð elsta stigs

Í síðustu viku sýndu nemendur á elsta stigi söngleikinn High School Musical á tveimu sýningum. Krakkarnir hafa undirbúið og æft söngleikinn frá því í haust og margir komið að uppfærslunni. Hópur nemenda var í valnámskeiði sem útbjó sviðsmynd og hannaði búninga og nokkrir nemendur tóku að sér að hanna lýsingu og stjórna hljóði. Það er alltaf mikil spenna í aðdraganda árshátíðarinnar enda mikil vinna að baki. Áhorfendur fögnuðu vel á sýningunum tveimur og full ástæða til því krakkarnir stóðu sig einstaklega vel.
Lesa meira

Það stendur mikið til

Þar sem fjöldi unglinga kemur saman þar er fjör! Í Egilsstaðaskóla hafa unglingarnir fengist við fjölbreytt verkefni síðustu daga. Legoliðið hefur æft sig af kappi fyrir First Lego League keppnina sem verður í Háskólabíói á laugardaginn. Hægt verður að fylgjast með liðinu á netinu en keppnin hefst kl. 9.30. Slóðin er: https://firstlego.is/ Hópur krakka valdi sér viðfangsefni sem þau unnu að og meðal afurðanna úr þeirri vinnu eru spil sem þau hönnuðu frá grunni. Og spennan fyrir árshátíðinni hefur stigmagnast. Fyrri sýningin á High School Musical verður í kvöld, miðvikudag og sú seinni annað kvöld. Báðar sýningar hefjast kl. 19.30. Það eru glaðir en spenntir nemendur sem bíða eftir að stíga á svið og sömuleiðis þeir sem stjórna ljósum, hljóði og stýra innkomum á sviðið. Við munum birta myndir frá sýningunni á næstunni.
Lesa meira

High School Musical - árshátíð elsta stigs

Stór hluti nemenda á elsta stigi hefur undanfarnar vikur undirbúið árshátíð sína, sem að þessu sinni er uppsetning á söngleiknum High School Musical. Það er að ýmsu að huga við uppsetningu sem þessa; gerð leikmyndar, samsetningu gerva, æfingar á söng og dönsum auk æfinga á leikritinu sjálfu. Nemendur sjá um að stýra ljósi og hljóði á sýningunum, með aðstoð kennara. Að ósk krakkanna sjálfra verða tvær sýningar og þær eru miðvikudaginn 13. nóvember og fimmtudaginn 14. nóvember, báðar klukkan 19.30. Það er enginn aðgangseyrir að árshátíðum Egilsstaðaskóla en tekið við frjálsum framlögum sem fara í leiklistarsjóð skólans til kaupa á búnaði.
Lesa meira