Áslaug Munda knattspyrnukona í heimsókn

Í dag fengu nemendur í 6.bekk góða heimsókn. Fyrrum nemandi skólans, Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir, er í stuttri heimsókn hjá fjölskyldu sinni. Það þekkja margir til Áslaugar Mundu en hún hefur spilað fótbolta lengi og hefur á síðustu árum verið valin í landslið Íslands, nú síðast í A-landslið kvenna sem spilaði í Frakklandi fyrir skömmu.
Áslaug Munda sagði krökkunum frá ýmsu í tengslum við fótboltann og námið í taugavísindum, sem hún stundar núna við Harvard háskóla í Bandaríkjunum. Eysteinn Hauksson, umsjónarkennari og fótboltaþjálfari og Áslaug Munda spjölluðu við krakkana um hve mikilvægt er að setja sér markmið og leggja vinnu í að ná þeim. Í tilfelli Áslaugar Mundu hefur hún þurft að leggja hart að sér til að ná árangri, bæði í fótboltanum og í náminu. Það hefur skipt miklu fyrir hana að nálgast verkefnin með jákvæðu hugarfari og nú leggur hún áherslu á að ljúka náminu í Harvard.
Krakkarnir tóku Áslaugu Mundu mjög vel eins og myndirnar sýna og margir fengu eiginhandaráritun hjá þessari flottu knattspyrnukonu.