Breytt nýting á húsnæði skólans

Í haust urðu ýmsar breytingar á nýtingu húsnæðis Egilsstaðaskóla. Árgangar voru fluttir til í þeim tilgangi að nemendur fengju meira rými, aðstaða starfsfólks var sameinuð og opin rými nýtt sem vinnusvæði. Fjórir deildarstjórar hafa sameiginlega vinnuaðstöðu í því sem áður var fundaherbergi, skólastjóri og aðstoðarskólastjóri deila skrifstofu, náms- og starfsráðgjafi og félagsfærnikennari deila rými og þrjú rými, sem áður voru skrifstofur eru nú fundaherbergi, vinnurými og kennsluaðstaða. Bókasafn skólans hefur tekið nokkrum breytingum og er að hluta til opið fyrir börnin sem eru í Frístund fyrir og eftir skóla. Frístund hefur nú aðstöðu á efstu hæð, við hliðina á bókasafninu.
Fjórði og fimmti bekkur eru í vetur á efstu hæð skólans, næst bókasafni en þar er möguleiki á að opna flekahurðir á milli stofanna og þannig er hægt að nýta rýmið ennþá betur. Meðfylgjandi eru myndir af aðstöðu 4. bekkjar þar sem sést hvernig kennslurýmið lítur út í dag. Einnig fylgir mynd af verkefni nemenda sem sýna hringrás vatns og af hluta bekkjarsáttmála sem börnin hafa sameinast um.