Rafmagn í 7. bekk

Undanfarna daga hafa nemendur í 7. bekk unnið verkefni í tengslum við rafmagn. Þau hafa lært að stöðurafmagn er allt í kringum okkur í öllum hlutum. Venjulega eru jafnmargar róteindir og rafeindir í hlutum en við núning tveggja hluta getur það breyst og þá færast rafeindir af öðrum hlutum yfir á hinn. Ef hlutur fær í sig mikið af rafeindum úr öðrum hlutum er hann hlaðinn stöðurafmagni.

Nemendur gerðu tilraun með því að strjúka uppblásinni blöðru hratt fram og aftur eftir hári sínu og létu hana svo loða við vegg í stutta stund. Eftir það stóð hárið út í loftið og var svolitla stund að jafna sig. Hvort tveggja, blaðran og hárið, fengu þá í sig rafhleðslu og hægt að segja að myndast hafi stöðurafmagn.

Rafrásir byggjast á tveimur meginþáttum. Leiðara, sem straumurinn fer eftir og straumgjafa, eins og rafhlöðu. Til að nota rafstrauminn þarf að tengja tæki inn í rafrásina. Til dæmis þegar kveikt er á vasaljósi er ljósaperan tengd við straumgjafann (rafhlöðuna) og myndar rafrás í vasaljósinu. Með því að slökkva á rofanum er rafrásin rofin og það slokknar á ljósinu og ef kveikt er á rofanum lokast rafrásin og þá kviknar ljósið.

Nemendur gerðu ýmsar verklegar æfingar þessu tengt eins og að tengja viftu við rafhlöðu og tengja rofa á milli til að slökkva og kveikja.

Það er ekki ólíklegt að rafvirkjar framtíðarinnar séu hér að stíga sín fyrstu skref á framabrautinni.

Meðfylgjandi eru nokkrar myndir af þessu skemmtilega verkefni í sjöunda bekk.