Skólaþing 1. - 6. bekkjar

Seinni hluti Skólaþings Egilsstaðaskóla var haldið í gær. Nemendur í 1. – 6. bekk, foreldrar þeirra og forsjáraðilar, fóru í ferðalag um skólann í nokkurs konar ratleik. Fjölbreytt verkefni voru á stöðvum um allan skóla og því mikið líf í öllu húsinu.

Verkefnin voru t.d. að klippa út fótspor sitt og festa á vegg, mæla hávaða í desibilum, þrykkja lófafar á óralangan pappírsstranga, smakka góðgæti í heimilisfræðistofu og fræðast um fæðuhringinn, mynda orð úr orði og leysa ýmsar þrautir svo dæmi séu tekin. Börnin svöruðu líka spurningum sem vörðuðu líðan þeirra og skólastarfið. Spurt var hvar og hvernig þeim þætti best að lesa, hvernig væri best að læra stærðfræði, hvernig mætti minnka hávaða í kennslustofunum og ýmislegt fleira. Spurningarnar voru mótaðar útfrá svörum í Skólapúlsinum og hugmyndin að kalla eftir áliti barnanna á hvernig hægt sé að bæta þætti í skólastarfinu til að komið sé betur til móts við þarfir þeirra.

Það var gott að sjá foreldra og börn vinna saman, ræða um skólann og kryfja málin.

Kennarar undirbjuggu ferðalagið eða ratleikinn með forritinu Actionbound en því er hlaðið niður í snjalltæki og skráð inn með QR kóða. Þetta var í fyrsta sinn sem þessi leið er farin á skólaþingi í Egilsstaðaskóla og í ferlinu safnaðist mikil reynsla og þekking hjá starfsfólkinu. Við þökkum foreldrum og forsjáraðilum innilega fyrir að koma á Skólaþingið og hlökkum til að kynna niðurstöður þess síðar í vetur.