Skóli án síma gefur gæðatíma

Á fyrra Skólaþingi vetrarins ræddu nemendur í 7. - 10. bekk, ásamt foreldrum sínum um tækifæri og áskoranir við það að Egilsstaðaskóli verði símalaus. Lykilspurning þingsins var Hver eru tækifærin við skóla án síma og hverjar eru áskoranirnar?
Skólaþingið var sett upp eins og heimskaffi þannig að umræður fóru í fyrstu umferð fram á 4 manna borðum. Í annarri umferð dreifðust þáttakendur á önnur borð og umræðunni lauk svo með því að upphaflegur umræðuhópur greindi leiðir til að takast á við áskoranir og hvernig fanga mætti tækifærin.
Það var mjög ánægjulegt að fylgjast með umræðunni en niðurstöður þingsins verða nýttar í undirbúningi fyrir að skólinn verði snjallsímalaus um næstu áramót. Niðurstöðurnar verða kynntar fyrir foreldrum og forsjáraðilum í fréttabréfi þegar úrvinnslu er lokið.
Það er mikilvægt að fá foreldra og forsjáraðila í skólann til að fjalla um mál með börnum sínum. Við þökkum þeim sem mættu kærlega fyrir þátttökuna.