Stóra upplestrarkeppnin 2025

Á hverju skólaári tekur 7. bekkur þátt í verkefni sem gengur undir nafninu Stóra upplestrarkeppnin. Verkefnið nær allt aftur til 1996 þegar þróunarverkefni um upplestur og framsögn hófst í Hafnarfirði. Þó í heiti verkefnisins sé orðið keppni þá er alls ekki um eiginlega keppni að ræða heldur þróunarverkefni sem snýst um að æfa nemendur í upplestri og auka áhuga á íslensku.
Stóra upplestrarkeppnin fer fram í þremur hlutum. Í upphafi æfa allir nemendur í 7.bekk sig í upplestri og framsögn og á bekkjarhátíð eru valdir 15 lesarar sem fara áfram í næsta hluta. Á skólahátíð eru fengnir utanaðkomandi dómarar til að velja 5 nemendur sem eru fulltrúar skólans á Héraðshátíð.
Héraðshátíðin fór fram í Egilsstaðakirkju 25. mars sl. Fulltrúar Egilsstaðaskóla stóðu sig framúrskarandi: Bjarni Jóhann Björgvinsson var valinn besti lesarinn og Styrmir Vigfús Guðmundsson varð í þriðja sæti.
Það er alltaf ánægjulegt að fylgjast með hvað krakkarnir eflast og styrkjast í æfingaferlinu og þetta er þjálfun og reynsla sem nýtist þeim síðar í lífinu við margvíslegar aðstæður.