Fréttir

Minnkum sóun

Nemendur 6. bekkjar unnu á dögunum skemmtilegt verkefni þar sem þeir kynntu sér matarsóun og með hvaða leiðum við getum minnkað hana. Þeir unnu í hópum og útbjuggu kynningu sem þeir fluttu fyrir áhugasama nemendur 1.-5. bekkjar. Með því vildum við vekja alla til umhugsunar um þá sóun sem felst í því að leifa mat. Á tveggja vikna tímabili vigtuðu nemendur hve mikill matur fór til spillis í matsal skólans í matartímum yngsta stigs og miðstigs, þ.e. hve mikill matur var skafinn af diskunum eftir matartímann. Fyrri vikuna vissu aðeins nemendur 6. bekkjar af vigtuninni en fyrir þá seinni höfðu hóparnir haldið kynningar um matarsóun fyrir 1. – 5. bekk. Nemendur í þessum bekkjum voru því meðvitaðir um vigtunina og að fá sér aðeins minna á diskinn og fara frekar oftar. Krakkarnir stóðu sig mjög vel og leifðu mun minni mat seinni vikuna eða 21,25 kg á móti 31,85 kg í þeirri fyrri. Allir hópar unnu svo með niðurstöður vigtunarinnar í Excel töflureikni og gerðu súlurit sem sýnir vel mun milli vikna. Að lokum voru gerð veggspjöld sem hengd voru um skólann til að sýna niðurstöður vigtunarinnar til að minna alla á að gera sitt besta og sóa ekki mat að óþörfu.
Lesa meira

Hreyfidagar

Vikuna 8.-12. febrúar voru heilsu- og hreyfidagar í Egilsstaðaskóla. Þessa daga var sérstök áhersla lögð á hreyfingu og heilsu í skólastarfinu. Nemendur og starfsmenn voru hvattir til að gefa hreyfingu meiri gaum og hreyfa sig með fjölbreyttum hætti í skólastarfinu og huga að heilsu og vellíðan hvort sem það var með gönguferðum, útileikjum, slökun, stofuleikfimi, dans eða með öðrum hætti. Það var vinsælt að fara út að renna, á skauta og lengdar frímínútur nýttar í gönguferðir og aukatíma á fót- og körfuboltavelli. Á öllum stigum var notast við myndbönd Lazy monster fyrir stofuleikfimi og dansað með just dance. Hafragrautur var í boði á morgnana fyrir nemendur og starfsmenn í matsal skólans og voru allt upp í 100 manns sem nýttu sér það á degi hverjum. Krafthræra, sem nemendur í sjöunda bekk útbjuggu í heimilisfræði var í boði fyrir alla nemendur og starfsmenn. Krafthræra er nýtt íslenskt orð yfir ávaxtaboost. Því miður þurfti að fresta hefðbundnu bekkjarmóti í íþróttahúsi, þar sem aðeins mátti vera með 50 nemendur í hóp sökum heimsfaraldurs. Stefnt er á að halda það mót um leið og takmörkunum verður aflétt. Þess í stað fóru allir bekkir í Tarzanleik í íþróttum. Rætt var við nemendur um gildi hreyfingar, slökunar, svefns, útiveru, mataræðis og þeirra þátta sem almennt snerta heilsu og vellíðan okkar. Starfsmenn skólans fengu leiðsögn á gönguskíðum ásamt hugleiðslu og slökun í vikulokin.
Lesa meira

Himingeimurinn í 3. bekk

Þessa dagana á himingeimurinn hug allra í 3. bekk. Nemendur hafa unnið í hópum með eina plánetu hver og orðið sérfræðingar í henni. Hópavinnunni lauk svo með kynningu fyrir bekkjarfélaga og þannig hafa allir fengið fræðslu um allar pláneturnar. Á þessum tímum þar sem foreldrar geta ekki komið í heimsókn í skólann var brugðið á það ráð að bjóða foreldrum að vera með í gegnum Teams. Ekki hægt að segja annað en að ánægja hafi verið með hversu vel tókst til.
Lesa meira

Húfur sem koma sér vel í kuldanum

Menntun í list- og verkgreinum felst í því að nemendur vinna verklega og skapandi vinnu þar sem reynir á huga, hjarta og hönd. Námið felur í sér kerfisbundna þjálfun í hverri námsgrein fyrir sig þar sem reynir á ólíka þætti í mismiklum mæli eftir eðli verkefna. Nemendur í 2. bekk fara í tvær lotur í textílmennt á hverju skólaári, ein á haustönn og ein á vorönn. Haldið er áfram að byggja ofan á þekkingu sem nemendur hafa og þeir fá að kynnast saumavélinni í einföldum vélsaumsverkefnum. Lögð er áhersla á að nemendur beri virðingu fyrir tækjum og efnivið sem verið er að nota og temji sér góða umgengni. Um helmingur bekkjarins hefur nú lokið textílmennt á þessari önn. Þau stigu sín fyrstu skref í vinnu á saumavél og áhuginn á því töfra tæki mikill. Þessir kátu krakkar eru búin að sauma sér þessar fínu húfur úr flísefni sem hafa komið sér sérstaklega vel í kuldanum upp á síðkastið. Eins og sjá má eru menn ánægðir með útkomuna.
Lesa meira

Rafsuða í vali á unglingastigi

Samkvæmt grunnskólalögum nr. 91 frá 2008 skulu nemendur á elsta stigi eiga kost á vali um námsgreinar. Nemendur í 8.-10. bekk skulu samkvæmt Aðalnámskrá eiga kost á vali fimmtung námstímans. Í Egilsstaðaskóla er val 6 klukkustundir á viku í 8.-10. bekk. Markmið með vali er að gefa nemendum tækifæri til þess að velja viðfangsefni í skólanum í tengslum við áhugasvið, styrkleika og framtíðaráhorf. Í samstarfi við MSV ehf og Aðalsteinn Ásmundsson var í haust boðið upp á rafsuðu í list- og verkvali á unglingastigi og komust færri að en vildu. Vegna heimsfaraldurs þurfti að fresta námskeiðinu oftar en einu sinni en loksins var hægt að halda það á dögunum. Námskeiðið vakti mikla lukku og er óskandi að framhald geti orðið á samstarfi við fyrirtæki í sveitarfélaginu þannig að kynna megi sem fjölbreyttastar starfsgreinar fyrir nemendum. Fjölbreytt verkval getur hjálpað nemendum að finna nýjar leiðir og vakið áhuga þeirra meðal annars á iðngreinum, sem er mjög mikilvægt.
Lesa meira

Vinaliðar

Egilsstaðaskóli er þátttakandi í verkefni sem kennt er við Vinaliða, en að þessu sinni eru 41 barn í skólanum sem sinnir hlutverkinu. Um er að ræða verkefni sem stuðlar að forvörnum gegn einelti á skólalóðinni. Aðalmarkmið verkefnisins er að bjóða öllum nemendum skólans fjölbreyttara úrval afþreyingar í frímínútum fyrir hádegi. Nemendur í 4. til 7. bekk ásamt umsjónarkennurum velja einstaklinga úr bekkjunum sem fá hlutverk vinaliða en þeir hafa umsjón með að koma leikjum og afþreyingu í gang og ganga frá eftir leikina. Nemandi sem er valinn til að gegna hlutverki Vinaliða starfar í u.þ.b 3 mánuði í senn. Hver vinaliði vinnur að verkefninu í frímínútunum fyrir hádegi einu sinni í viku. Hann mætir einnig á fundi, aðra hverja viku, þar sem starfið í frímínútum er skipulagt og vangaveltur sem því tengjast eru ræddar. Það er ekkert sem segir að Vinaliði geti ekki verið valinn aftur, bekkjarfélagar tilnefna þá nemendur sem þeim finnst passa í starfið hverju sinni. Við val á Vinaliðum eru nemendur skólans sérstaklega beðnir um að tilnefna einstaklinga sem þeim finnst vera vingjarnlegir og sýna öðrum nemendum virðingu. Í lok hvers tímabils er vinaliðunum boðið upp á þakkarferð þar sem reynt er að gera sér góðan dag. Það sem meðal annars hefur gert til að þakka nemendum fyrir vel unnin störf er bíó og sundferð á Seyðisfjörð, ratleikur í Hallormsstaðaskógi, hjóla – og leikjaferð á Egilsstöðum, skíðadagur í Stafdal, baðferð í Vök svo eitthvað sé nefnt. Þá enda allar þakkarferðir á máltíð, oftast pizzaveislu. Þar að auki fá vinaliðarnir afsláttarkort þar sem þau geta nýtt sér góða afslætti, bæði innan sveitarfélagsins og utan. Undanfarin 2 ár hafa nokkur fyrirtæki í sveitarfélaginu verið svo góð að styðja við verkefnið með því að gefa krökkunum afslátt og færum við þeim bestu þakkir fyrir það. Verkefnastjórar vinaliðaverkefnisins í Egilsstaðaskóla skólaárið 2020 til 2021 eru Fjóla Hrafnkelsdóttir og Thelma Snorradóttir.
Lesa meira

Lilla hættir

Guðbjörg Friðriksdóttir, lét af störfum í dag eftir tæplega 32 ára starf sem skólaliði í Egilsstaðaskóla. Það hefur verið gæfa fyrir skólann, nemendur og starfsmenn að fá að vera samferða Lillu þennan tíma og skarð hennar verður ekki auðfyllt. Við óskum Lillu gæfu og góðrar heilsu á komandi árum með kæru þakklæti fyrir hennar starf í þágu okkar allra.
Lesa meira

Rafmagn í 7. bekk

Undanfarna daga hafa nemendur í 7. bekk unnið verkefni í tengslum við rafmagn. Þau hafa lært að stöðurafmagn er allt í kringum okkur í öllum hlutum. Venjulega eru jafnmargar róteindir og rafeindir í hlutum en við núning tveggja hluta getur það breyst og þá færast rafeindir af öðrum hlutum yfir á hinn. Ef hlutur fær í sig mikið af rafeindum úr öðrum hlutum er hann hlaðinn stöðurafmagni. Nemendur gerðu tilraun með því að strjúka uppblásinni blöðru hratt fram og aftur eftir hári sínu og létu hana svo loða við vegg í stutta stund. Eftir það stóð hárið út í loftið og var svolitla stund að jafna sig. Hvort tveggja, blaðran og hárið, fengu þá í sig rafhleðslu og hægt að segja að myndast hafi stöðurafmagn. Rafrásir byggjast á tveimur meginþáttum. Leiðara, sem straumurinn fer eftir og straumgjafa, eins og rafhlöðu. Til að nota rafstrauminn þarf að tengja tæki inn í rafrásina. Til dæmis þegar kveikt er á vasaljósi er ljósaperan tengd við straumgjafann (rafhlöðuna) og myndar rafrás í vasaljósinu. Með því að slökkva á rofanum er rafrásin rofin og það slokknar á ljósinu og ef kveikt er á rofanum lokast rafrásin og þá kviknar ljósið. Nemendur gerðu ýmsar verklegar æfingar þessu tengt eins og að tengja viftu við rafhlöðu og tengja rofa á milli til að slökkva og kveikja. Það er ekki ólíklegt að rafvirkjar framtíðarinnar séu hér að stíga sín fyrstu skref á framabrautinni. Meðfylgjandi eru nokkrar myndir af þessu skemmtilega verkefni í sjöunda bekk.
Lesa meira

Vitund um velferð

Í skólanum í vetur hefur farið fram velferðarkennsla sem leggur rækt við að efla vitund nemenda um eigin velferð og hugarfar. Kennslan byggist á hugmyndafræði jákvæðrar sálfræði sem beinist að því að auka velsæld, efla bjartsýni og trú á eigin getu. Unnið er út frá því sjónarmiði að hamingja snúist ekki endilega um að vera alltaf ánægð og líða vel heldur að bregðast við erfiðleikum sem upp geta komið í lífinu á farsælan hátt. Þeir þættir sem unnið er með að þessu sinni eru tilfinningar og mikilvægi þeirra allra, áhrif hugsana á líðan, nemendur læra að greina styrkleika sína og annarra og hvernig áhrif hugarfars nýtist þeim til að blómstra. Einnig er heilastarfsemin skoðuð með tilliti til tilfinninga og þess að læra nýja hluti. Rannsóknir Carol Dweck hafa sýnt fram á að þegar nemendur læra um heilastarfsemina ná þeir betur að átta sig á eigin viðbrögðum og sjá frekar tilgang með námi sínu. Einnig er áhersla á mikilvægi slökunar. Elsta stigið mun hefja sitt velferðarnám í næstu viku þar sem sérstök áhersla verður á samkennd í eigin garð. Meðfylgjandi myndband er viðtal við börn í 2. bekk í fyrra sem höfðu lokið 2 vikna þemadögum um hamingjuna.
Lesa meira

Skólastarf á nýju ári

Gleðileg jól og kærar þakkir fyrir samvinnu á árinu sem er að líða. Megi nýja árið verða okkur farsælt. Þann 21. desember var birt reglugerð um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar, sem tekur gildi 1. janúar nk. og gildir til 28.febrúar. Samkvæmt henni er nú leyfilegt að blanda hópum og jafnframt leyfilegt að fara yfir 50 nemenda fjöldamörk í matsal og göngum að því tilskyldu að starfsmenn séu með grímur. Á grunni þessarar nýju reglugerðar stefnum við því að hefðbundnu skólastarfi eftir áramótin með fullan skóladag fyrir alla nemendahópa. Jafnframt geta nú allir nemendur snætt hádegisverð í mötuneyti. Frístund mun einnig starfa hefðbundið að morgni og síðdegis. Skólinn verður áfram lokaður gestum, nema með leyfi og í samráði við skólastjóra, og grímuskylda verður áfram fyrir gesti. Reglugerðina er að finna hér: https://www.stjornarradid.is/default.aspx?pageid=e5cf150d-33a7-11e6-80c7-005056bc217f&newsid=82943967-43ae-11eb-812c-005056bc8c60 Sá fyrirvari er á þessum áformum að ef faraldurinn færist í aukana á ný og settar verða nýjar reglur um takmarkanir mun þurfa að aðlaga skólastarfið að því, en það mun þá verða tilkynnt foreldrum þann 4.janúar. Fyrsti skóladagur nemenda er þriðjudagurinn 5. janúar.
Lesa meira