26.04.2023
Eftir páskafrí tókst loksins að hafa útivistardag fyrir 5. - 9.bekk en áður hafði þurft að fresta vegna veðurs. Boðið var upp á ferð í Eyjólfsstaðaskóg annars vegar þar sem gert var út frá Blöndalsbúð og hins vegar var skíðaferð í Stafdal.
Viðfangsefnin í Blöndalsbúð voru skipulögð af Náttúruskólanum í samvinnu við starfsfólk skólans. Krakkarnir fengu að tálga, mála á klaka, vatnslita úti, baka lummur yfir opnum eldi, gera jógaæfingar og ýmislegt fleira. Það var sérlega gaman að fylgjast með krökkunum í fjölbreyttum viðfangsefnum og í öðrum aðstæðum en dags daglega.
Í Stafdal var skíðað af miklum krafti og þó nokkrir fóru á skíði í fyrsta skipti undir styrkri leiðsögn Hildar Jónu Gunnlaugsdóttur skíðakennara.
Dagurinn var í heild vel heppnaður og nemendur og starfsfólk nutu þess að vera úti í fjölbreyttum verkefnum.
Lesa meira
15.04.2023
Í 2.bekk hafa krakkarnir verið að lesa bókina Herra Skruddi og týnda galdradótið. Í tengslum við lesturinn eru ýmis verkefni unnin; æfð skrift, teiknaðar myndir, unnið með einstök orð, tvöfalda samhljóða og ýmislegt annað. Í meðfylgjandi myndasafni má sjá sýnishorn af vinnunni, sem er mjög mikilvægur þáttur á þeirri leið að ná tökum á lestri.
Lesa meira
13.04.2023
Rétt fyrir páskafrí var árshátíð 5. - 7.bekkjar haldin. Leikritið um Pétur Pan var flutt fyrir fullu húsi áhorfenda. Umsjónarkennarar leikstýrðu sínum árgöngum og annað starfsfólk á miðstigi kom með virkum hætti að uppsetningunni. Kennarar og nemendur Tónlistarskólans á Egilsstöðum önnuðust tónlistarflutning og stjórn söngatriða. Leikmynd, búningar og skreytingar voru í umsjón kennara og starfsfólks miðstigs en auk þeirra aðstoðuðu list- og verkgreinakennarar við ýmislegt að ógleymdum húsverði skólans, sem aðstoðaði við smíði á leikmynd. Það er alltaf mikil spenna í aðdraganda árshátíða en jafnframt mikil gleði þegar sýningin er afstaðin og allt hefur gengið vel. Þannig var það líka hjá öllum þeim sem tóku þátt í uppsetningunni á Pétri Pan að þessu sinni.
Lesa meira
11.04.2023
Fimmtudaginn 13.apríl verður útivistardagur fyrir alla nemendur í 5. - 9.bekk. Boðið er upp á skíðaferð í Stafdal annars vegar og hins vegar útiveru í Eyjólfsstaðaskógi (við Blöndalsbúð) á vegum Náttúruskólans. Tvisvar er búið að fresta útivistardeginum vegna veðurs en vonandi leikur veðrið við okkur á fimmtudaginn.
Lesa meira
28.03.2023
Árlega koma tveir danskir farkennarar til Íslands og starfa í grunn- og framhaldsskólum víða um land. Danska menntamálaráðuneytið er í samstarfi við íslensk menntayfirvöld og sveitarfélög um þetta verkefni, sem gengur út á að styðja við dönskukennslu og styrkja kennara í starfi. Í vetur hefur farkennari verið á Austurlandi, í Fjarðabyggð fyrir jól og í Múlaþingi eftir áramót. Vibeke Lund vann með dönskukennurum í Egilsstaðaskóla í 7 vikur, skipulagði og tók þátt í kennslu í 7.-10.bekk þann tíma og fundaði með kennurum.
Í dag komu fulltrúar frá danska menntamálaráðuneytinu í heimsókn í skólann ásamt Vibeke farkennara til að ræða við dönskukennarana m.a. um hvernig hægt er að styðja enn betur við dönskukennslu á Íslandi og ræða um farkennaraverkefnið. Með á fundinum var auk þess Helga Guðmundsdótir fyrrverandi fræðslustjóri Múlaþings sem líka kenndi dönsku um árabil. Við þökkum Vibeke Lund kærlega fyrir gott og gefandi samstarf.
Lesa meira
27.03.2023
Vegna veðurs og færðar verður allt skólahald í Egilsstaðaskóla fellt niður í dag, mánudaginn 27. mars.
Lesa meira
16.03.2023
Héraðshátíð Stóru upplestrarkeppninnar fór fram í Egilsstaðaskóla miðvikudaginn 15. mars í 27.skipti. Tíu nemendur í sjöunda bekk, úr fimm skólum á Austurlandi – norðursvæði, höfðu unnið sér inn þátttökurétt á hátíðinni. Undirbúningur fyrir keppnina hefur hafist á Degi íslenskrar tungu þann 16. nóvember en hann felst í að nemendur æfa upplestur og framsögn á bæði bundnu og óbundnu máli. Nemendur komu því vel undirbúnir og lögðu mikinn metnað í flutning sinn. Textarnir, sem lesnir voru að þessu sinni, eru úr bókinni Blokkin á heimsenda eftir Arndísi Þórarinsdóttur og Huldu Sigrúnu Bjarnadóttur. Ljóðin eru eftir Aðalstein Ásberg Sigurðsson en auk þess velja keppendur eitt ljóð að eigin vali. Þrír dómarar meta keppendur á lokahátíðinni en til þeirra verka er fengið fólk sem hefur bakgrunn sem nýtist þeim við að meta framlag barnanna. Það var vandasamt að velja þau þrjú sem hlutu fyrstu sæti keppninnar en niðurstaðan var sú að Jóhann Smári Kjartansson hlaut fyrsta sæti, Baldur Jarl Fjölnisson annað sæti og Sofija Una Kruze Unnarsdóttir þriðja sætið. Jóhann Smári og Baldur Jarl eru nemendur í Egilsstaðaskóla og Sofija Una í Seyðisfjarðarskóla. Jarðþrúður Ólafsdóttir kennsluráðgjafi hjá Skólaþjónustu Múlaþings hefur haldið utan um framkvæmd keppninnar Á Austurlandi um árabil en keppnin er skipulögð og undirbúin af Röddum, samtökum um vandaðan upplestur og framsögn.
Lesa meira
10.03.2023
Árlega koma slökkviliðsmenn í heimsókn í 3.bekk og fræða þau um eldvarnir. Krakkarnir taka þátt í eldvarnargetraun Landssambands slökkviliðsmanna og í dag komu slökkviliðs-og varaslökkviliðsstjóri Múlaþings í 3.bekk og afhentu verðlaun fyrir eldvarnargetraun, sem fór fram fyrir jól. Vinningshafinn er Katrín Þöll Skarphéðinsdóttir og við óskum henni til hamingju með vinninginn.
Lesa meira
08.03.2023
Sólborg Guðbrandsdóttir og Þorsteinn V. Einarsson heimsóttu okkur í gær og fluttu alls 3 fyrirlestra fyrir nemendur í 7.-10.bekk og fyrir foreldra og aðra áhugasama um mörk, samskipti og karlmennsku. Þau Sólborg og Þorsteinn hafa ferðast víða um land til að spjalla við krakka og foreldra með það að markmiði að stuðla að uppbyggilegra jafnréttissamfélagi með því að hrista upp í viðteknum samfélagslegum normum og hugmyndum. Bæði Sólborg og Þorsteinn halda úti Instagram síðum þar sem þau vekja athygli á ýmsu sem tengist m.a. stafrænu kynferðisofbeldi og viðteknum hugmyndum um karlmennsku. Nánar er hægt að kynna sér efnið á Instagramsíðunum Fávitar og Karlmennskan.
Lesa meira
03.03.2023
Nemendur á unglingastigi héldu þorrablót sitt fimmtudaginn 2.mars. Nemendaráð annaðist undirbúning dagskrár og sá um skreytingar. Að loknu borðhaldi tóku við skemmtiatriði. Nemendur í 10.bekk gerðu myndband þar sem þeir gerðu stólpagrín að kennurum sínum og starfsfólki unglingastigsins en auk þess var farið í leiki og nemendur og starfsfólk sýnd í spéspegli. Umsjónarkennarar 10.bekkjar enduðu svo skemmtidagskránna með árlegum pistli um útskriftarnema, sem margir höfðu beðið spennir eftir. Upp var settur glæsilegur myndaveggur og margir nýttu sér að stilla sér upp með vinum og bekkjarfélögum til myndatöku. Allir voru til fyrirmyndar og ekki annað að sjá en krakkarnir skemmtu sér vel.
Lesa meira