Fréttir

Sagan af bláa hnettinum

Nemendur á miðstigi héldu árshátíð sína á dögunum. Krakkarnir settu Söguna af bláa hnettinum á svið en sagan fjallar um börn sem búa langt úti í geimnum og fullorðnast ekki. Til þeirra kemur vera sem umturnar áhyggjulausu lífi og fer með þau í hættulegt ferðalag. Í sýningunni er mikið sungið og mikið fjör. Að sýningunni komu um 120 nemendur, sem auk þess að leika og syngja undirbjuggu leikmynd, stjórnuðu hljóði og ljósum og voru sviðsmenn. Umsjónarkennarar 5. - 7. bekkjar sáu um undirbúning sýningarinnar en æfingar hófust í janúar. Tónlistarkennarar og tónlistarnemar í Tónlistarskólanum á Egilsstöðum önnuðust tónlistarflutning á sýningunni og færum við þeim innilegar þakkir fyrir samstarfið.
Lesa meira

Áslaug Munda knattspyrnukona í heimsókn

Í dag fengu nemendur í 6.bekk góða heimsókn. Fyrrum nemandi skólans, Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir, er í stuttri heimsókn hjá fjölskyldu sinni. Það þekkja margir til Áslaugar Mundu en hún hefur spilað fótbolta lengi og hefur á síðustu árum verið valin í landslið Íslands, nú síðast í A-landslið kvenna sem spilaði í Frakklandi fyrir skömmu. Áslaug Munda sagði krökkunum frá ýmsu í tengslum við fótboltann og námið í taugavísindum, sem hún stundar núna við Harvard háskóla í Bandaríkjunum. Eysteinn Hauksson, umsjónarkennari og fótboltaþjálfari og Áslaug Munda spjölluðu við krakkana um hve mikilvægt er að setja sér markmið og leggja vinnu í að ná þeim. Í tilfelli Áslaugar Mundu hefur hún þurft að leggja hart að sér til að ná árangri, bæði í fótboltanum og í náminu. Það hefur skipt miklu fyrir hana að nálgast verkefnin með jákvæðu hugarfari og nú leggur hún áherslu á að ljúka náminu í Harvard. Krakkarnir tóku Áslaugu Mundu mjög vel eins og myndirnar sýna og margir fengu eiginhandaráritun hjá þessari flottu knattspyrnukonu.
Lesa meira

Glitrum saman á föstudaginn

Á föstudaginn munum við fagna GLITRANDI DEGINUM, sem er haldinn til að sýna stuðning og samstöðu við þá sem lifa með sjaldgæfa sjúkdóma eða heilkenni. Við ætlum að glitra saman í litríkum og glitrandi fatnaði, í glimmeri og pallíettum.
Lesa meira

Árshátíð miðstigs og nemendastýrð viðtöl

Árshátíð miðstigs (5. - 7. bekkjar) hefur verið færð til fimmtudagsins 20. febrúar. Að þessu sinni verður sviðsett Sagan af bláa hnettinum, byggt á sögu Andra Snæs Magnasonar og hefst sýningin kl. 17.00. Nemendastýrð viðtöl sem áttu að fara fram þ. 20. febrúar verða föstudaginn 21. febrúar. Foreldrar og forsjáraðilar fá sendan póst með upplýsingum um skráningu.
Lesa meira

Skólahald hefst að nýju mánudaginn 10. febrúar

Foreldrum og forsjáraðilum hefur nú verið sent bréf þess efnis að verkfall kennara hefur verið dæmt ólögmætt. Skóli hefst því að nýju mánudaginn 10. febrúar samkvæmt stundarkrá.
Lesa meira

100 daga hátíðin

Það voru stolt börn í 1. bekk sem fögnuðu því að þau eru búin að vera 100 daga í grunnskóla. Krakkarnir voru með kórónur í tilefni dagsins og skrifuðu á hjörtu hvað þeim þætti gott eða gaman. Skólastjórinn ávarpaði hópinn, allir fengu íspinna og svo var bíó. Krakkarnir skoppuðu svo út í helgarfrí, ánægð með sig og tímamótin.
Lesa meira

Í minningu fyrrum nemanda

Í liðinni viku var Jón Grétar Broddason, fyrrum nemandi Egilsstaðaskóla, jarðsettur. Í minningu hans komu bekkjarfélagar hans, úr árgangi 1983, með gjöf til nemenda skólans. Í kortinu sem fylgdi gjöfinni var skrifað "Hver minning er dýrmæt perla" sem rammar inn fallega hugsun þessara fyrrum nemenda til fallins félaga. Við þökkum fyrir þessa góðu gjöf og sendum aðstandendum Jóns Grétars innilegar samúðarkveðjur.
Lesa meira

Mæting er mikilvæg

Öll börn á aldrinum 6 - 16 ára eiga að sækja grunnskóla (lög um grunnskóla nr. 91/2008). Það er á ábyrgð foreldra að börnin mæti í skóla og stundi nám sitt (reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskóla nr. 1040/2011). Sveitarfélög og skólar setja viðmið um mætingar og ástundun nemenda sem kveða á um viðbrögð skóla ef mætingum er ábótavant. Góð mæting og ástundun skiptir máli fyrir velferð og líðan barna. Ef barn er oft fjarverandi frá skóla eða kemur ítrekað of seint getur það haft neikvæð áhrif á líðan barns barns og árangur í námi. Góð skólasókn getur að sama skapi stutt við farsæld barns í námi og starfi síðar á lífsleiðinni og stuðlað að vellíðan barns í skólanum og jákvæðri sjálfsmynd. Foreldrar og forsjáraðilar þurfa að skrá veikindi og skemmri leyfi barna í Mentor og sækja um lengri leyfi. Ekki er hægt að skrá leyfi fyrir barn með dags fyrirvara í Mentor. Í verklagsreglum, sem skólinn hefur sett sér, er haft samband heim ef barn mætir ekki að morgni og ekki liggur fyrir skráning í Mentor. Ýmist er hringt eða sendur tölvupóstur. Þar er horft til aldurs barns og þroska og þetta er gert með öryggi barna í huga. Mikilvægt er að foreldrar og forsjáraðilar upplýsi kennara eða stjórnendur um það ef barn er í leyfi marga daga í einu en kennarar gefa ekki út áætlanir til margra vikna í senn og ekki fram tímann fyrir nemendur sem eru að fara í lengra leyfi. Viðmið um ástundun er að finna undir tenglinum Nemendur og sömuleiðis ábendingar um mikilvægi mætinga. Múlaþing hefur sett viðmið vegna skólasóknar sem má sjá á heimasíðunni undir tenglinum Gagnlegt efni.
Lesa meira

Reglur um heimsóknir barna í Egilsstaðaskóla

Egilsstaðaskóli hefur sett sér reglur um nemendaheimsóknir í skólann. Börn, sem koma og dvelja tímabundið hjá foreldrum / forsjáraðilum geta sótt um fastar heimsóknir í Egilsstaðaskóla. Sækja þarf um námsdvöl með að minnsta kosti viku fyrirvara. Nemendur sem koma úr öðrum skólum þurfa að hafa með sér námsáætlun og námsgögn frá eigin skóla. Ekki er hægt að verða við beiðnum um tilfallandi heimsóknir fyrrum nemenda við skólann, ættingja eða vina nemenda. Öllum beiðnum um heimsóknir er vísað til skólastjóra eða aðstoðarskólastjóra. Reglurnar í heild eru aðgengilegar undir tenglinum Foreldrar.
Lesa meira

Gleðilegt nýtt ár

Gleðilegt ár! Skólastarf hefst samkvæmt stundaskrá mánudaginn 6. janúar.
Lesa meira