19.12.2023
Undirbúningur fyrir jólaskemmtanir var í fullum gangi í dag; Jólatréð var tekið inn og þurfti að kalla marga til því tréð er stórt og þungt. Nemendaráð sér svo um að skreyta tréð og salinn fyrir jólaskemmtun fyrir 7. - 10. bekk er í kvöld. Að henni lokinni eru nemendur í þeim árgöngum komnir í jólafrí.
Á morgun verður dansað í kringum tréð þegar nemendur í 1. - 6. bekk mæta sinn síðasta skóladag fyrir jólafrí.
Lesa meira
19.12.2023
Krakkarnir í sjötta bekk héldu sýningu á fiðrildum, sem þau höfðu búið til í textíl. Fiðrildin eru litrík og fjölbreytileg eins og vera ber og þau tóku sig vel út í vetrarbirtunni.
Lesa meira
15.12.2023
Það var litríkur hópur nemenda og starfsfólks sem mætti í skólann í morgun. Jólapeysur, jólahúfur, jólasokkar og alls konar jólaskraut hafði verið dregið fram og því skartað í tilefni af því að nú styttist mjög til jóla.
Lesa meira
14.12.2023
Í haust kallaði Mjólkursamsalan eftir textum frá nemendum í elstu bekkjum grunnskóla. Frá árinu 1994 hefur MS nýtt fjölbreyttar leiðir til að efla móðurmálið og hafa stærstu og sýnilegustu verkefnin verið íslenskuátök á mjólkurfernum. Yfir 1200 textar bárust frá nemendum víða af landinum. Af 48 textum, sem munu birtast á mjólkurfernum á næstunni, eiga nemendur úr Egilsstaðaskóla sex.
Hér fyrir neðan eru myndir af textunum eftir þær Mariu Önnu, Rakel, Kötlu Lind, Sólveigu Ásu, Sól og Karen Töru. Við óskum þeim innilega til hamingju með frábæra texta og hlökkum til að fylgjast með mjólkurfernunum á næstunni.
Lesa meira
07.12.2023
Í Egilsstaðaskóla eru 420 nemendur og hátt í 100 starfsmenn. Það er margt í gangi á venjulegum degi, eins og í dag þriðjudaginn 7. desember. Alls staðar er verið að vinna að einhverju ákveðnu og hver manneskja hefur sitt hlutverk.
Það er litað, bakað, hlustað, skrifað, saumað, prjónað, þvegið, smíðað, eldað, talað, hlegið og gantast. Í fyrirlestrasal er æfð endurlífgun. Meðfylgjandi eru myndir teknar í húsinu í dag, sem sýna hluta þess sem var í gangi á stórum vinnustað. Ró yfir húsinu og jólaandinn farinn að setja svip sinn á húsnæðið og verkefnin sem voru í vinnslu.
Lesa meira
05.12.2023
Í 9. bekk er fjallað um mannslíkamann í náttúrufræði. Hluti af náminu fer fram með krufningu á innyflum.Krakkarnir eru áhugasöm um að skoða mismunandi líffæri og greina þau enda er þetta áþreifanlegra en horfa á myndir í bók og veitir dýrmæta innsýn í líkamsstarfsemi manna og dýra.
Lesa meira
04.12.2023
Nemendur og starfsfólk skólans fögnuðu fullveldi landsins þann 1. desember sl. Skólastjóri og formaður Nemendaráðs, Ríkey Anna Ingvarsdóttir, fluttu ávörp á stuttum samverustundum í matsal. Jóhann Smári Kjartansson, nemandi í 8. bekk, las dæmisögu Esóps um hérann og skjaldbökuna. Jóhann Smári var einn vinningshafa í Stóru upplestrarkeppninni síðasta vetur. Í lokin sungu nemendur saman þrjú lög í tilefni af því að dagurinn er líka dagur tónlistarinnar. Allir voru spariklæddir í tilefni dagsins.
Lesa meira
30.11.2023
Tugir unglinga stigu á svið á árshátíð elsta stigs Egilsstaðaskóla í vikunni. Undanfarnar vikur hafa lögin úr söngleiknum Grease hljómað um ganga skólans og víða var verið að undirbúa allt það sem þarf á sýningu sem þessari; Það þurfti að smíða bekki fyrir sviðsmyndina, mála barinn, finna til búninga, mála sviðsmyndina, gera árshátíðarstafina, æfa dansa og söngva, æfa senur, koma hljóði í lag, æfa hljómsveit og hanna lýsinguna. Allt þetta hafa krakkarnir verið að gera í aðdraganda sýningarinnar ásamt öllum kennurum á unglingastigi en auk þeirra aðstoðuðu list- og verkgreinakennarar við sviðsmynd. Húsvörður skólans, Þórarinn Bjarnason aðstoðaði við smíði á leikmynd og uppsetningu á henni. Leikstjóri sýningarinnar var Hrefna Hlín Sigurðardóttir kennari en árshátíðin var samvinnuverkefni allra sem koma að unglingastiginu.
Tónlistarskólinn á Egilsstöðum aðstoðaði við að æfa söng og undirleik. Þeim kennurum og nemendum tónlistarskólans, sem spiluðu með hljómsveitinni, þökkum við innilega fyrir samstarfið.
Lesa meira
24.11.2023
Umboðsmaður barna stóð fyrir barnaþingi föstudaginn 17. nóvember. Þetta er í þriðja sinn sem barnaþing er haldið en það hefur verið haldið á tveggja ára fresti.
Um 150 börn á aldrinum 11 – 15 ára víðs vegar af landinu sótti þingið en þátttakendur eru valdir með slembiúrtaki úr Þjóðskrá.
Þrír nemendur í Egilsstaðaskóla sóttu þingið, einn úr 9. bekk og tveir úr 7. bekk.
Börnin ræddu ýmis mál en m.a. kom fram að börn telja brýnt að stjórnvöld hlusti meira á börn og að réttindi allra barna væru tryggð. Lagt var til að sálfræðiþjónusta væri til staðar í öllum skólum, kosningaaldur væri lækkaður niður í 16 ár, skólakerfið væri sniðið betur að þörfum allra og bið eftir greiningum væri stytt. Auk þess bentu börnin á að bæta þyrfti þjónustu fyrir flóttafólk, strætó væri ókeypis fyrir öll börn undir 18 ára og að öll kyn fengju sömu réttindi í íþróttum.
(Upplýsingar teknar af heimasíðu Umboðsmanns barna, www.umbodsmaður.is)
Lesa meira
22.11.2023
Elsti árgangur á Skógarlandi kom í heimsókn og hlustaði á krakka úr 7. bekk lesa upp á bókasafninu. Þetta er hluti af áætlun um skólaaðlögun leikskólabarna. Sjöunda- bekkjar börnin stóðu sig með prýði og gestirnir okkar hlustuðu af athygli á lesturinn. Næsta heimsókn leikskólabarnanna er eftir áramót en þá koma þau í verkgreinatíma. Meðfylgjandi eru nokkrar myndir frá samverustundinni.
Lesa meira