Fréttir

High School Musical - árshátíð elsta stigs

Stór hluti nemenda á elsta stigi hefur undanfarnar vikur undirbúið árshátíð sína, sem að þessu sinni er uppsetning á söngleiknum High School Musical. Það er að ýmsu að huga við uppsetningu sem þessa; gerð leikmyndar, samsetningu gerva, æfingar á söng og dönsum auk æfinga á leikritinu sjálfu. Nemendur sjá um að stýra ljósi og hljóði á sýningunum, með aðstoð kennara. Að ósk krakkanna sjálfra verða tvær sýningar og þær eru miðvikudaginn 13. nóvember og fimmtudaginn 14. nóvember, báðar klukkan 19.30. Það er enginn aðgangseyrir að árshátíðum Egilsstaðaskóla en tekið við frjálsum framlögum sem fara í leiklistarsjóð skólans til kaupa á búnaði.
Lesa meira

Val í 8. - 10. bekk

Um miðjan nóvember hefst nýtt valtímabil á elsta stigi. Samkvæmt aðalnámskrá á val í 8. - 10. bekk að vera fimmtungur af námi nemendanna. Skólaárinu er skipt upp í fjögur valtímabil en valið er kennt á þriðjudögum og fimmtudögum, frá kl. 13.50 - 15.10. Upplýsingar um þau námskeið sem eru í boði er að finna í valbæklingi sem er aðgengilegur á heimasíðu skólans, undir tenglinum Nám og kennsla - Val í 8. - 10.bekk. Heimilt er að meta frístundastarf, s.s. íþróttaiðkun og sjálfboðaliðastarf sem utanskólaval. Sömuleiðis er hægt að fá tónlistarnám metið sem utanskólaval. Þeir sem taka hluta vals utanskóla þurfa að fá staðfestingu foreldra / forsjáraðila með undirskrift á valblaðið. Með breytingum á Aðalnámskrá grunnskóla fyrr á árinu varð breyting varðandi það hvað má meta sem utanskólaval. Áður var heimilt að meta launaða vinnu sem utanskólaval en það hefur verið afnumið. Meiri upplýsingar um val er að finna í Aðalnámskrá grunnskóla, á vefsvæðinu www.adalnamskra.is
Lesa meira

Ýmis verkefni á nemendaviðtalsdegi

Í dag mæta nemendur Egilsstaðaskóla í viðtöl til umsjónarkennara með forráðafólki sínu. Dagurinn er nýttur til ýmissa annarra verka og starfsfólk skiptist á að æfa sig í að slökkva eld með slökkvitæki undir styrkri handleiðslu slökkviliðsmanna hjá Slökkviliði Múlaþings. Svo styttist í árshátíð elsta stigs og því er dagurinn nýttur til æfinga en sumir nemendur nota líka tímann til að læra.
Lesa meira

Þetta er á Veðurstofu Íslands

Krakkarnir í 4. bekk hafa undanfarið kynnt sér veðrið, lært veðurtákn og samið sína eigin veðurlýsingu. Þau söfnuðu orðum sem lýsa veðri og útbjuggu veðurkort. Nú geta þau nýtt sér það að ræða um veðrið ef umræðuefni þrýtur.
Lesa meira

Hrekkjavakan og Svavar Knútur

Það voru margar sérkennilegar verur sem mættu í skólann í morgun tilbúnar í hrylling dagsins! Nemendur og starfsfólk mætti uppábúið og víða var búið að koma upp skreytingum í anda Hrekkjavökunnar enda finnst mörgum þessi dagur skemmtileg tilbreyting frá hversdagsleikanum. Svavar Knútur hélt tvenna örtónleika fyrir krakkana á miðstigi og elsta stigi sem tóku vel á móti þessum ágæta tónlistarmanni.
Lesa meira

Skelfilegi bókaklúbburinn

Skelfilegi bókaklúbburinn er nú í gangi á bókasafninu í tilefni al-íslenskrar hrekkjavöku. Það er hægt að finna hinar ýmsu hryllilegu hryllingssögur, mishryllilegar eftir aldri og þori nemenda. Krakkarnir, sem vilja taka þátt, fá lestrarkort og geta valið sér hryllingsmyndir til að líma í það þegar þau hafa lokið bók. Nú þegar hafa um 140 börn skráð sig í klúbbinn því það er gríðarlegur áhugi á að taka þátt. Klúbburinn lifir næstu þrjár til fjórar vikur en þá tekur jólaklúbburinn við.
Lesa meira

Heimsókn frá Alþingi

Nemendur í 9. og 10. bekk fengu heimsókn frá Alþingi í morgun. Í tilefni þess að 80 ár eru liðin frá stofnun íslenska lýðveldisins hefur starfsfólk skrifstofu Alþingis ferðast um landið til að heimsækja grunnskóla á landsbyggðinni þar sem þeir kynna starfsemi Alþingis og setja upp eins konar Skólaþing. Nemendum var skipt í 4 þingflokka og ýmis mál rædd. Gestirnir voru mjög ánægðir með hve virkan þátt krakkarnir tóku þátt í umræðunni og hældu hópunum.
Lesa meira

Breytt nýting á húsnæði skólans

Í haust urðu ýmsar breytingar á nýtingu húsnæðis Egilsstaðaskóla. Árgangar voru fluttir til í þeim tilgangi að nemendur fengju meira rými, aðstaða starfsfólks var sameinuð og opin rými nýtt sem vinnusvæði. Fjórir deildarstjórar hafa sameiginlega vinnuaðstöðu í því sem áður var fundaherbergi, skólastjóri og aðstoðarskólastjóri deila skrifstofu, náms- og starfsráðgjafi og félagsfærnikennari deila rými og þrjú rými, sem áður voru skrifstofur eru nú fundaherbergi, vinnurými og kennsluaðstaða. Bókasafn skólans hefur tekið nokkrum breytingum og er að hluta til opið fyrir börnin sem eru í Frístund fyrir og eftir skóla. Frístund hefur nú aðstöðu á efstu hæð, við hliðina á bókasafninu. Fjórði og fimmti bekkur eru í vetur á efstu hæð skólans, næst bókasafni en þar er möguleiki á að opna flekahurðir á milli stofanna og þannig er hægt að nýta rýmið ennþá betur. Meðfylgjandi eru myndir af aðstöðu 4. bekkjar þar sem sést hvernig kennslurýmið lítur út í dag. Einnig fylgir mynd af verkefni nemenda sem sýna hringrás vatns og af hluta bekkjarsáttmála sem börnin hafa sameinast um.
Lesa meira

Stutt vika 14. - 16. október en margt í gangi

Síðasta vikan fyrir vetrarfrí er hafin. Það er margt um að vera í skólanum þessa daga og krakkarnir fá heimsóknir frá ýmsum aðilum. Í dag eru fulltrúar Samtakanna 78 með fræðslu fyrir 3 árganga, 3., 6. og 9. bekk. Á morgun fer 6. bekkur í Sláturhúsið á leiksýningu um Kjarval og á miðvikudaginn verður kynning á starfsemi Alþingis fyrir 9. og 10. bekk. Í dag eru kynningarfundir fyrir foreldra/ forsjáraðila en þeir hefjast á stuttri fræðslu í matsal skólans. Kl. 16. 30 - 17.30 mæta foreldrar/forsjáraðilar barna í 1. - 4. bekk Kl. 17.30 - 18.30 mæta foreldrar/forsjáraðilar barna í 5. - 7. bekk Kl. 18.30 - 19.30 mæta foreldrar / forsjáraðilar barna í 8. - 10. bekk
Lesa meira

Péturshlaup

Í vikunni var Péturshlaupið sem er minningarhlaup fyrir Pétur Þorvarðarson, sem var nemandi í Egilsstaðaskóla. Hlaupin er ákveðin vegalengd sem nemendur hafa hlaupið í útiíþróttum í haust. Nemendur í 5. - 7. bekk tóku þátt í hlaupinu og úrslitin á miðstigi voru þau að bróðurbörn Péturs, Ísabella Rún og Pétur Logi komu fyrst í mark. Á elsta stigi kom Andrea Ýr Benediktsdóttir fyrst í mark í stúlknaflokki en tæknileg mistök við framkvæmd hlaupsins urðu til þess að tveir deildu fyrsta sæti í drengjaflokki, þeir Alexander Klausen og Aron Daði Einarsson.
Lesa meira