20.01.2025
Í liðinni viku var Jón Grétar Broddason, fyrrum nemandi Egilsstaðaskóla, jarðsettur. Í minningu hans komu bekkjarfélagar hans, úr árgangi 1983, með gjöf til nemenda skólans. Í kortinu sem fylgdi gjöfinni var skrifað "Hver minning er dýrmæt perla" sem rammar inn fallega hugsun þessara fyrrum nemenda til fallins félaga.
Við þökkum fyrir þessa góðu gjöf og sendum aðstandendum Jóns Grétars innilegar samúðarkveðjur.
Lesa meira
08.01.2025
Öll börn á aldrinum 6 - 16 ára eiga að sækja grunnskóla (lög um grunnskóla nr. 91/2008). Það er á ábyrgð foreldra að börnin mæti í skóla og stundi nám sitt (reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskóla nr. 1040/2011). Sveitarfélög og skólar setja viðmið um mætingar og ástundun nemenda sem kveða á um viðbrögð skóla ef mætingum er ábótavant.
Góð mæting og ástundun skiptir máli fyrir velferð og líðan barna. Ef barn er oft fjarverandi frá skóla eða kemur ítrekað of seint getur það haft neikvæð áhrif á líðan barns barns og árangur í námi. Góð skólasókn getur að sama skapi stutt við farsæld barns í námi og starfi síðar á lífsleiðinni og stuðlað að vellíðan barns í skólanum og jákvæðri sjálfsmynd.
Foreldrar og forsjáraðilar þurfa að skrá veikindi og skemmri leyfi barna í Mentor og sækja um lengri leyfi. Ekki er hægt að skrá leyfi fyrir barn með dags fyrirvara í Mentor.
Í verklagsreglum, sem skólinn hefur sett sér, er haft samband heim ef barn mætir ekki að morgni og ekki liggur fyrir skráning í Mentor. Ýmist er hringt eða sendur tölvupóstur. Þar er horft til aldurs barns og þroska og þetta er gert með öryggi barna í huga. Mikilvægt er að foreldrar og forsjáraðilar upplýsi kennara eða stjórnendur um það ef barn er í leyfi marga daga í einu en kennarar gefa ekki út áætlanir til margra vikna í senn og ekki fram tímann fyrir nemendur sem eru að fara í lengra leyfi.
Viðmið um ástundun er að finna undir tenglinum Nemendur og sömuleiðis ábendingar um mikilvægi mætinga.
Múlaþing hefur sett viðmið vegna skólasóknar sem má sjá á heimasíðunni undir tenglinum Gagnlegt efni.
Lesa meira
03.01.2025
Egilsstaðaskóli hefur sett sér reglur um nemendaheimsóknir í skólann. Börn, sem koma og dvelja tímabundið hjá foreldrum / forsjáraðilum geta sótt um fastar heimsóknir í Egilsstaðaskóla. Sækja þarf um námsdvöl með að minnsta kosti viku fyrirvara. Nemendur sem koma úr öðrum skólum þurfa að hafa með sér námsáætlun og námsgögn frá eigin skóla.
Ekki er hægt að verða við beiðnum um tilfallandi heimsóknir fyrrum nemenda við skólann, ættingja eða vina nemenda. Öllum beiðnum um heimsóknir er vísað til skólastjóra eða aðstoðarskólastjóra.
Reglurnar í heild eru aðgengilegar undir tenglinum Foreldrar.
Lesa meira
03.01.2025
Gleðilegt ár!
Skólastarf hefst samkvæmt stundaskrá mánudaginn 6. janúar.
Lesa meira
20.12.2024
Nemendur í 1. - 6. bekk mættu á jólaskemmtun í morgun. Í upphafi fluttu 6.bekkingar jólasveinavísur eftir Jóhannes úr Kötlum og sungu eitt hresst jólalag. Allir fóru svo í heimastofur og áttu notalega jólastund. Allir komu svo saman og dönsuðu í kringum jólatréð. Kennaraband Tónlistarskólans á Egilsstöðum sá um undirleik og forsöng. Jólasveinar litu við og dönsuðu nokkra hringi en þar sem mikið annríki er hjá þeim þessa dagana stoppuðu þeir stutt við.
Allir nemendur eru nú komnir í kærkomið jólafrí fram til 6. janúar á nýju ári. Skrifstofa skólans er lokuð til 3. janúar en þá hittast kennarar og annað starfsfólk næst.
Starfsfólk Egilsstaðaskóla óskar nemendum og fjölskyldum þeirra gleðilegra jóla og þakkar samstarfið á árinu.
Lesa meira
19.12.2024
Á hverjum vetri hittast vinabekkir nokkrum sinnum og gera eitthvað notalegt saman. Krakkarnir í 4. og 9. bekk áttu vinastund þar sem þau skrifuðu gullkorn og settu í krukkur. Þau fóru svo með krukkurnar á vinnustaði í bænum þar sem þeim var afar vel tekið. Þetta var ánægjuleg samvera í jólaamstrinu.
Lesa meira
17.12.2024
Í skólanum eru ýmis verkefni í gangi þrátt fyrir að jólafríið nálgist óðfluga. Sum þeirra eru tengd jólunum en önnur alls ekki. Á meðan krakkarnir í 6. bekk gerðu sér jólaskraut og bökuðu piparkökur sýndu sjöundu-bekkingar verkefni sín í náttúrufræði. Í 4. bekk bjuggu krakkarnir til gluggaskraut og á unglingastigi var samkeppni um fallegustu jólahurðina. Allir unglingarnir fóru saman á skautasvellið og fengu heitt kakó og piparkökur. Í dag komu margir með jólahúfur í skólann og það er hátíðarmatur í hádegismatinn. Jólakötturinn læðist upp um veggi og það eru lesnar jólabækur. Það er semsagt jólalegt yfir öllu eins og vera ber á þessum tíma.
Lesa meira
10.12.2024
Í 9. bekk læra nemendur um mannslíkamann í náttúrufræði. Hluti af náminu er verklegt þegar krakkarnir kryfja innyfli. Í ár fengu þau að spreyta sig á hreindýratungu og hjörtum, nýrum, typpum, eistum og pungum úr sauðfé.
Flestir hafa mjög gaman af þessu þó að stöku nemandi skipti aðeins litum. Eitt af því sem þykir allra mest spennandi er að fá að blása í lungu og margir prófuðu það.
Lesa meira
09.12.2024
Við fengum heimsókn af sviðslistahópnum Hnoðra í norðri í síðustu viku. Hópurinn flutti jólasöngleik, sem kallast Ævintýri á aðventu, fyrir nemendur í 1. - 4. bekk. Í verkinu koma fyrir nokkrar jólalegar persónur, sem eru reynda misgeðfelldar. Meðal þeirra eru Grýla, Jólakötturinn og systurnar Solla (á bláum kjól) og Gunna (á nýju skónum). Hnoðri í norðri er skipaður þremur tónlistarmönnum; Jónu, Jóni Þorsteini og Erlu Dóru en sú síðastnefnda var nemandi í Egilsstaðaskóla á árum áður.
Krakkarnir höfðu gaman af sýningunni og tóku vel undir sönginn þegar þess var óskað.
Lesa meira
02.12.2024
Fyrir helgina komu nemendur og starfsfólk Egilsstaðaskóla saman og fögnuðu fullveldi landsins. Nýkjörinn formaður Nemendaráðs Egilsstaðaskóla, Agla Eik Frostadóttir, flutti ávarp og Anna Björk Guðjónsdóttir kennari ávarpaði samkomuna. Nemendur í Tónlistarskólanum á Egilsstöðum fluttu tónlistaratriði og í lokin sungur allir saman þrjú lög í tilefni af Degi íslenskrar tónlistar.
Aðventan er nú gengin í garð og mun Nemendaráð skólans skipuleggja viðburði í desember sem verða auglýstir í árgöngum á viðburðadagatali á heimasíðunni.
Lesa meira