31.03.2025
Það eru fjölbreytt viðfangsefni í skólanum að venju. Í dag hófst fyrirlögn á Matsferli en Egilsstaðaskóli er einn 26 skóla sem taka þátt í þróun á stafrænum stöðu- og framvinduprófum í lesskilningi og stærðfræði. Matsferill verður svo tilbúinn á næsta ári og þá lagður fyrir nemendur í 4. - 10. bekk í öllum skólum.
Krakkarnir í 9. bekk nýttu sér gangana til að ræða um stærðfræði og reikna saman. Með þessu móti er stærðfræðin sýnileg í skólaumhverfinu og verður þannig til þess að krakkarnir ræða um hana sín á milli.
Lesa meira
27.03.2025
Á hverju skólaári tekur 7. bekkur þátt í verkefni sem gengur undir nafninu Stóra upplestrarkeppnin. Verkefnið nær allt aftur til 1996 þegar þróunarverkefni um upplestur og framsögn hófst í Hafnarfirði. Þó í heiti verkefnisins sé orðið keppni þá er alls ekki um eiginlega keppni að ræða heldur þróunarverkefni sem snýst um að æfa nemendur í upplestri og auka áhuga á íslensku.
Stóra upplestrarkeppnin fer fram í þremur hlutum. Í upphafi æfa allir nemendur í 7.bekk sig í upplestri og framsögn og á bekkjarhátíð eru valdir 15 lesarar sem fara áfram í næsta hluta. Á skólahátíð eru fengnir utanaðkomandi dómarar til að velja 5 nemendur sem eru fulltrúar skólans á Héraðshátíð.
Héraðshátíðin fór fram í Egilsstaðakirkju 25. mars sl. Fulltrúar Egilsstaðaskóla stóðu sig framúrskarandi: Bjarni Jóhann Björgvinsson var valinn besti lesarinn og Styrmir Vigfús Guðmundsson varð í þriðja sæti.
Það er alltaf ánægjulegt að fylgjast með hvað krakkarnir eflast og styrkjast í æfingaferlinu og þetta er þjálfun og reynsla sem nýtist þeim síðar í lífinu við margvíslegar aðstæður.
Lesa meira
26.03.2025
... eftir að allir nemendur og starfsfólk er farið heim. Þá fara mjúkdýrin á stjá og njóta rólegheitanna með því að lesa og lita.
Lesa meira
24.03.2025
Um 100 börn sviðsettu söguna um Línu langsokk á árshátíð 3. og 4. bekkjar í síðustu viku. Það var mikið fjör og krakkarnir stóðu sig með mikilli prýði.
Að venju þarf að sinna ýmsum verkefnum, ekki aðeins að leika og syngja heldur líka hanna og gera sviðsmynd, stjórna ljósum og hljóði, setja saman búninga og öll þau verkefni sem fylgja því að setja upp leiksýningu. Myndirnar segja meira en mörg orð. Sumir myndirnar eru teknar af Unnari Erlingssyni og við þökkum honum kærlega fyrir að fá að birta þær hér.
Lesa meira
24.03.2025
Það er margt í gangi í Egilsstaðaskóla þessa daga. Í morgun var generalprufa fyrir árshátíð 3. og 4. bekkjar sem er klukkan 17.00 í dag. Í fyrirlestrasal lásu 15 krakkar í 7. bekk fyrir bekkjarfélaga sína, foreldra og nemendur í 6. bekk á bekkjarhátíð Stóru upplestrarkeppninnar. Þrír dómarar völdu 5 nemendur til að vera fulltrúa Egilsstaðaskóla í Héraðshátíð Stóru upplestrarkeppninnar sem er síðar í mánuðinum.Og seinni hópar 10. bekkjar tóku PISA könnun. Það er því í mörg horn að líta.
Lesa meira
13.03.2025
Krakkarnir í 5. bekk buðu forráðafólki sínu á sýningu á áhugasviðsverkefnum sem þau hafa unnið að undanfarið. Verkefnin voru mjög fjölbreytt og gaman að sjá hvað krakkarnir höfðu lagt mikinn metnað í þau.
Sem dæmi um verkefni má nefna Grænland, nefapa, ísbirni, sveitina, fræga íþróttamenn, íþróttafélagið Hött og margt fleira. Meðfylgjandi eru myndir af hluta verkefnanna og krökkunum.
Lesa meira
06.03.2025
Miðvikudaginn 12. mars nk. verður haldinn fundur í skólaráði sem er opinn öllum, foreldrum og forsjáraðilum, starfsfólki skólans, nemendum og öðrum sem eru áhugasamir um starfsemi skólans.
Samkvæmt reglugerð nr. 1157/2008 um skólaráð við grunnskóla skal halda einn líkan fund á ári fyrir aðila skólasamfélagsins. Þar séu málefni skólans til umræðu.
Dagskrá fundarins er sem hér segir:
Drög að skóladagatali næsta skólaárs
Heillaspor; Dagbjört Kristinsdóttir aðstoðarskólastjóri kynnir verkefnið sem er í innleiðingu
Öryggismál
Önnur mál
Fundur verður haldinn í kennslustofu 10. bekkjar sem er nr. 20 og er á annarri hæð kennsluhúsnæðisins, gengið inn um miðstigs/elsta stigs gang, og hefst kl. 17.00.
Lesa meira
05.03.2025
Margir telja öskudaginn besta dag ársins, bæði börn og fullorðnir og það sýndi sig vel í morgun þegar skólastarfið hófst. Flestir koma í einhvers konar búningum og sumir hafa lagt mikinn metnað í gervin sín. Það er alltaf gaman að ganga um skólann og sjá hvað börn og fullorðnir njóta dagsins en á dagskránni er samvera vinabekkja, samvera árganga og stiga og samkoma í íþróttahúsinu fyrir nemendur í 1. - 5. bekk sem er skipulögð af Foreldrafélagi Egilsstaðaskóla.
Skóladegi lýkur um hádegi og þá hefst vetrarfrí sem er eflaust kærkomið fyrir nemendur og starfsfólk.
Lesa meira
04.03.2025
Krakkarnir í 4. bekk hafa verið að læra um landnámið á Íslandi undanfarnar vikur. Hvert og eitt valdi sér landnámsmann og öfluðu upplýsinga um hann. Þau gerðu kort af Íslandi og gerðu knörr fyrir hvern landnámsmann sem þau staðsettu á þeim stöðum þar sem þeir námu land.
Bekkurinn fékk Baldur Pálsson í heimsókn en hann er Austurlandsgoði og sagði krökkunum frá landnáminu og heiðnum sið. Þau voru mjög spennt að fá goða í heimsókn og eitt barnanna spurði kennarann hvar hann hefði fundið landnámsmann.
Í lokin kynntu krakkarnir landnámsmennina sína hvert fyrir öðru.
Lesa meira
03.03.2025
Nemendur á miðstigi héldu árshátíð sína á dögunum. Krakkarnir settu Söguna af bláa hnettinum á svið en sagan fjallar um börn sem búa langt úti í geimnum og fullorðnast ekki. Til þeirra kemur vera sem umturnar áhyggjulausu lífi og fer með þau í hættulegt ferðalag.
Í sýningunni er mikið sungið og mikið fjör. Að sýningunni komu um 120 nemendur, sem auk þess að leika og syngja undirbjuggu leikmynd, stjórnuðu hljóði og ljósum og voru sviðsmenn. Umsjónarkennarar 5. - 7. bekkjar sáu um undirbúning sýningarinnar en æfingar hófust í janúar. Tónlistarkennarar og tónlistarnemar í Tónlistarskólanum á Egilsstöðum önnuðust tónlistarflutning á sýningunni og færum við þeim innilegar þakkir fyrir samstarfið.
Lesa meira